Ársreikningur
Borgarbyggðar fyrir árið 2018 var lagður fram á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar
í dag, fimmtudaginn 4. apríl. Niðurstaða hans sýnir að fjárhagur Borgarbyggðar
stendur traustum fótum.
Rekstrarniðurstaða ársins fyrir samstæðu A+B hluta er jákvæð um 502 milljónir
sem er um 290 milljóna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun
ársins. Bætt afkoma skýrist fyrst og fremst af auknum tekjum vegna hærri
launatekna íbúa og meiri umsvifum í sveitarfélaginu. Afskriftir og
fjármagnskostnaður eru einnig lægri en ráð var fyrir gert. Miklu máli skiptir
einnig í þessu sambandi að það náðist að halda rekstri málaflokka í mjög góðu
samræmi við upphaflega fjárhagsáætlun.
Helstu kennitölur fyrir samstæðu A+B hluta.
Tekjur ársins námu alls um 4.299 m.kr. Launakostnaður var 2,177 m.kr. og annar rekstrarkostnaður var 1,363 m.kr. Framlegð nemur 710 m.kr. Veltufé frá rekstri er 681 m.kr. eða 15,9% af tekjum. Eigið fé í árslok nam því 3.639 m.kr. í árslok og eiginfjárhlutfallið er 45,46%. Veltyfjárhlutfall er 1,8. Skuldaviðmið fer hratt lækkandi og er 42,6%. Það er því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Skuldahlutfall er 102% og hefur lækkað ár frá ári á undanförnum árum.
Skuldastaða sveitarfélagsins er traust.
Íbúum í Borgarbyggð hefur fjölgað um nær 300 frá árinu 2015. Öflugur rekstur og sterk fjárhagsstaða auðveldar samfélaginu að taka vel á móti nýjum íbúum og tryggja öllum íbúum góða þjónustu.
Unnið er markvisst að uppbyggingu innviða í Borgarbyggð. Stærsta
verkefnið sem sveitarfélagið hefur með höndum er endurbætur og viðbygging við
Grunnskólann í Borgarnesi sem hófst á síðasta ári. Fyrir liggur síðan í ár að
hefja uppbyggingu leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum og leggja
ljósleiðara um dreifbýli Borgarbyggðar.
Íbúar Borgarbyggðar voru 3.816 um síðustu áramót og nam fjölgunin 3,7% á milli
ára. Í Borgarbyggð störfuðu 344 starfsmenn í 269 stöðugildum í árslok 2018. Það
er því sem næst sami fjöldi og á árinu 2017.
Ábyrgur rekstur málaflokka
Rekstur málaflokka gekk vel og er í ágætu samræmi við upprunalega fjárhagsáætlun
fyrir árið. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 3.589 m.kr. en
samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að verja 3.539 m.kr. til reksturs
málaflokka. Hér er frávikið 50 milljónir sem er 1,4% af fjárhagsáætlun.
Fræðslumál eru sem fyrr langstærsti málaflokkur sveitarfélagsins. Til hans var
varið 1.828 milljónum eða 50,9% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 404
milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Æskulýðs og
íþróttamál eru þriðja umfangsmesta verkefni sveitarfélagsins en til þeirra var
ráðstafað um 303 m.kr. Til fræðslu-,
félagsþjónustu og íþrótta- og tómstundamála er því varið um 70,7% skatttekna Borgarbyggðar.
Ársreikningurinn
var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar þann 11. apríl og
seinni umræða í sveitarstjórn verður þann 9, maí n.k.