Magn úrgangs minnkar í Borgarbyggð

janúar 24, 2020
Featured image for “Magn úrgangs minnkar í Borgarbyggð”

Íbúar í Borgarbyggð hafa dregið úr myndun úrgangs undanfarin ár þegar skoðuð eru gögn sem berast sveitarfélaginu frá verktaka í sorphirðu. Þegar horft er til sorphirðu á heimilum í þéttbýli og dreifbýli kemur í ljós að magn úrgangs á hvern íbúa var 190 kg. á árinu 2019 en var 197 kg. árið 2018 og 210 kg. árið 2017. Hlutfall þess úrgangs sem fer í endurvinnslu (grænu tunnuna) minnkar  milli ára, fer úr 25% árið 2018 í 22% árið 2019, sem þýðir að hærra hlutfall fer til urðunar.

Þegar horft er til allra þátta sorphirðunnar; sorphirðu frá heimilum, grenndarstöðva og úrgangs sem fer í gegnum gámastöðina við Sólbakka í Borgarnesi hefur að sama skapi magn úrgangs minnkað lítillega á hvern íbúa. Af heildarmagni úrgangs í kílóum talið fer 35% í endurvinnslu, 5% á Bjarnhóla og 60% í urðun. Grenndarstöðvarnir skera sig nokkuð úr, þar sem mun meira fór til endurvinnslu en áður og urðun dróst saman.

Íbúar í Borgarbyggð eru því að draga úr myndun úrgangs en ljóst er að hægt er að gera betur í flokkun. Gert er ráð fyrir að flokkun aukist verulega og þar með dragi úr urðun þegar nýtt þriggja tunnu kerfi verður innleitt þann 1. apríl 2020.


Share: