Lokun gámasvæðis við Brúarás

apríl 28, 2017
Featured image for “Lokun gámasvæðis við Brúarás”

Borgarbyggð vinnur að fækkun opinna gámasvæða vegna slæmrar umgengni og kostnaðar. Þörf fyrir opin gámasvæði hefur minnkað enda hefur tunnum fyrir óflokkaðan úrgang og endurvinnsluúrgang verið komið fyrir við öll heimili í þéttbýli og dreifbýli auk þess sem fyrirtæki eiga að vera með sorphirðusamninga beint við verktaka.

Á næstu vikum verða allir gámar við félagsheimilið Brúarás fjarlægðir, og verður úrgangsþjónusta við sumarhúsaeigendur færð nær notendum og í næsta nágrenni við sumarhúsahverfin.

Þegar hreinsunarátak í dreifbýli stendur  yfir vor og haust, verða járn-og timburgámar aðgengilegir tímabundið í tvær vikur. Staðsetning þeirra verður auglýst þegar átakið verður kynnt.

Þá er í undirbúningi opnun mannaðrar móttökustöðvar fyrir úrgang í Reykholtsdal, þar sem tekið verður á móti flokkuðum úrgangi og er gert ráð fyrir að hún geti opnað á haustdögum. Með þessu má vænta betri úrgangsstjórnunar og fallegri ásýndar á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að búið verði að fjarlægja alla gáma við Brúarás þann 15. maí.

 


Share: