Sumaropnun í Safnahúsi frá 1. maí

apríl 28, 2017
Featured image for “Sumaropnun í Safnahúsi frá 1. maí”

Frá 1. maí n.k. eru sýningar Safnahúss Borgarfjarðar opnar alla daga vikunnar 13.00 – 17.00, jafnt helgidaga sem aðra daga.  Gildirþetta fram til 1. september en eftir það er opið 13.00 – 16.00 virka daga. Alls verða fimm sýningar í húsinu í sumar, tvær grunnsýningar á neðri hæðinni og sýningin Tíminn gegnum linsuna (ljósmyndir frá Borgarnesi), veggspjaldasýning um Pourquoi pas og minningarsýning um Jakob Jónsson á Varmalæk á efri hæð.  Vakin er athygli á að sumaropnun á einungis við um sýningar, afgreiðslutímar bókasafns og skjalasafns eru óbreyttir.

Einnig má geta þess að sýningin Tíminn gegnum linsuna verður opin aukalega laugardaginn 29. apríl vegna afmælishátíðar Borgarness og þá kl. 13.00 – 14.45.  Kl. 15.00 hefst svo afmælisdagskrá sem Borgarbyggð býður til í Hjálmakletti.

Grunnsýningar Safnahúss eru Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, en þær eru ekki síst þekktar fyrir listræna og frumlega hönnun Snorra Freys Hilmarssonar.  Margir merkir gripir eru á sýningunum, þar á meðal baðstofa frá Úlfsstöðum í Reykholtsdal.  Sýningarnar henta fyrir alla aldurshópa og jafnt fyrir Íslendinga sem erlenda gesti.  (mynd GJ)


Share: