Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi

mars 29, 2019
Featured image for “Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi”

Hinrik Úlfarsson og Jóhannes Þór Hjörleifsson í Grunnskólanum í Borgarnesi höfnuðu í 1. og 2. sæti Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi. Hátíðin fór fram í Búðardal og þar leiddu saman hesta sína nemendur úr Grunnskólum á Vesturlandi. Auk Hinriks og Jóhannesar tók Valborg Elva Bragadóttir þátt í keppninni af hálfu GB.

Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.

Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.

Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla þar sem tveir til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði, sem haldin er í góðum samkomusal í byggðarlaginu í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega.

Hafa ber í huga að „keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn.

Textarnir sem lesnir voru í ár eru eftir Ævar Þór Benediktsson og Önnu Snorradóttur. Auk þess lásu þátttakendur ljóð að eigin vali. Við óskum fulltrúum skólanna á lokahátíðinni sem og öllum 7. bekkingum sem tekið hafa þátt í vetur innilega til hamingju með framfarir í upplestri og framsögn.


Share: