Leiðtoginn í mér

september 12, 2016
Featured image for “Leiðtoginn í mér”

Námskeið  var haldið fyrir kennara og annað starfsfólk skóla sem er að hefja störf í Borgarbyggð um verkefnið Leiðtoginn í mér. Sóttu tuttugu manns námskeiðið sem fjallaði meðal annars um um sjö venjur til árangurs og mikilvægi þess að setja sér markmið. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Hlöðver Ingi Gunnarsson skólastjóri, Kristín Gísladóttir leikskólastjóri og Steinunn Baldursdóttir leikskólastjóri.

Í verkefninu Leiðtoginn í mér er markvisst unnið að því að byggja upp sterka einstaklinga með góða leiðtogafærni til að takast á við áskoranir í lífi og starfi. Leiðtoginn í mér snýst um að hjálpa hverjum einstaklingi til að blómstra, fá tækifæri til að vinna út frá sínum eigin styrkleikum og verða sá besti sem hann getur orðið. Í grunninn byggir Leiðtoginn í mér upp skilning og færni til að geta borið ábyrgð á eigin ákvörðunum og þannig mótað líf sitt til hins betra.

Sjö venjur til árangurs

Venja 1: Taktu af skarið

Ég ræð sjálfur yfir mínu eigin lífi og get valið hvernig ég bregst við og hvernig ég kem fram. Ég ber sjálfur ábyrgð á minni hamingju, sit við stjórnvölinn og vel leiðir mínar í lífinu.

Venja 2: Í upphafi skal endinn skoða

Þegar þú færð hugmynd eða vinnur að verkefni er mikilvægt að hafa skýra sýn á hver útkoman verður, þú setur þér markmið. Þegar þú veist hvert þú ætlar er auðveldara að finna út hvaða leið sé best, út frá því hvar þú ert stödd/staddur núna.

Venja 3: Kapp er best með forsjá”

Við lærum að forgangsraða, meta hvað sé mikilvægast að gera og í hvaða röð. Við tileinkum okkur að segja nei þegar það á við t.d. ef við vitum að það sem einhver er að biðja okkur um að gera er rangt eða ekki æskilegt.

Venja 4: Sigrum saman

Við viljum að öllum gangi vel. Ég veit hvað ég vil en þarf ekki að gera lítið úr öðrum eða setja þeirra hagsmuni til hliðar til að ná því fram. Það gerir mig glaðan er að sjá aðra glaða og hamingjusama. Ég hef gaman af því að gleðja aðra. Þegar vandamál kemur upp hugsum við um lausn sem hentar öllum. Við erum sterkari saman.

Venja 5: Skilningsrík hlustun

Hlustum áður en við tjáum okkur. Fyrst leitumst við við að skilja aðra og svo að gera okkur skiljanleg. Ég hlusta með eyrunum, augunum og hjartanu áður en ég svara. Ég set mig í spor annarra. Við vitum ekki hvað aðrir eru að hugsa og úr hvaða umhverfi þeir koma þess vegna er mikilvægt að leggja sig fram um að skilja þeirra sjónarhorn og bera virðingu fyrir því. Ég kem hugmyndum mínum á framfæri á rólegan hátt en af öryggi.

Venja 6: Samlegð

Ég læt mér lynda vel við aðra og virði skoðanir þeirra. Ég vinn vel í hóp, met styrkleika annarra og leyfi mér að læra af þeim. Ég veit að með því að vinna saman fáum við meiru áorkað, fáum fleiri hugmyndir og komum niður á betri lausn.

Venja 7:  Brýndu kutann

Ég huga vel að mínum grunnþörfum og því sem mér finnst mikilvægast í lífinu. Ég held áfram að tileinka mér hinar venjurnar og er meðvitaður um að ég læri í hinum ýmsu aðstæðum. Ég finn út hvað veitir mér gleði og hamingju en það nýti ég mér til að styrkjast og eflast á sem flestum sviðum.

leader-in-me


Share: