Leiðtogaverkefni innleitt – The leader in me

október 24, 2013
Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri hefur undirritað, fyrir hönd Borgarbyggðar, samning við Frankley Covey um innleiðingu á leiðtogaverkefninu The Leader in Me (Leiðtoginn í mér) í leikskólana Andabæ, Hnoðraból, Klettaborg og Ugluklett og Grunnskóla Borgarfjarðar.
The Leader in Me er hugmyndafræði fyrir skóla sem byggir á bók Steven R. Covey 7 Habits of Highly Effective People og gengur út á það að byggja upp sterka einstaklinga með góða leiðtogafærni til að takast á við áskoranir í lífi og starfi. Verkefnið byggir á rannsóknum um hvernig megi umbreyta menningu skólasamfélags svo að til komi efling á félagslegri færni nemenda, aukin tilfinningagreind og aukin færni í mannlegum samskiptum ásamt því að bæta námsárangur og virkja viljann til að taka þátt í leik og starfi.
 
Markmiðið er að undirbúa næstu kynslóð undir það að takast á við áskoranir og tækifæri 21. aldarinnar. The Leader in Me snýst þó ekki um að búa til litla leiðtoga úr öllum börnum, heldur að hjálpa hverjum einstaklingi til að blómstra. Hver einstaklingur fær þannig tækifæri til að vinna út frá sínum eigin styrkleikum og verða sá besti sem hann sjálfur getur orðið. Í grunninn byggir The Leader in Me upp skilning og færni til að geta borið ábyrgð á eigin ákvörðunum og þannig mótað líf sitt til hins betra ásamt því að þroska samskiptahæfni nemenda og starfsfólks.
Nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að nálgast á vefsíðunni http://www.theleaderinme.org/.
The Leader in Me hefur verið innleitt í yfir 2000 skóla víða um heim, mest í Bandaríkjunum og Norður-Evrópu. Niðurstöður úr reglubundnum könnunum sýna meðal annars að sjálfsmynd nemenda batnar, teymisvinna, frumkvæði, sköpun og leiðtogahæfni eykst, samskipti og námsárangur verða betri og betur gengur að leysa úr vandamálum sem upp koma. Skólabragurinn batnar og agamálum fækkar verulega. Kennarar finna fyrir meira stolti og ánægju í vinnunni og foreldrar eru ánægðari og taka meiri þátt í skólastarfinu.
Innleiðingarferlið tekur 3 ár. Fulltrúi Franklin Covey á Íslandi, Elín María Björnsdóttir, mun mennta starfsfólk skólanna í leiðtoga­hugmyndafræði Stephens R. Covey og leiða innleiðingarferlið í Borgarbyggð í samstarfi við starfsfólk.

Share: