Landupplýsingakerfi Borgarbyggðar

september 1, 2009
Sífellt fleiri sveitarfélög hafa tekið landupplýsingakerfi í sína notkun á undanförnum árum og skoðaði framkvæmdasvið á sínum tíma kosti þess að kaupa slíkt kerfi fyrir sveitarfélagið.
Í kjölfarið var ákveðið að kaupa kerfið InfraPath frá Verk- og kerfisfræðistofunni Snertli í Kópavogi og var samningur um uppbyggingu og þróun landupplýsingakerfis fyrir Borgarbyggð undirritaður þann 15. apríl 2008.
Kerfið InfraPath er líklega útbreiddasta landupplýsingakerfið meðal sveitarfélaga í dag og nýtist þeim sem nálgast þurfa íbúaupplýsingar, fasteignaupplýsingar, teikningar, skipulagsuppdrætti, veituupplýsingar eða aðrar kortaupplýsingar.
Þá nýtist kerfið til varðveislu og dreifingar á teikningum en hluti af verkefni Snertils varðandi landupplýsingakerfið var að skanna inn þær teikningar sem til voru í safni framkvæmdasviðs alls um 30.000 talsins.
Í stuttu máli er þetta fjölhæfur kortavefur með ýmsar hagnýtar upplýsingar innbyrðis og er það von framkvæmdasviðs að hann komi íbúum sveitarfélagsins sem og öðrum að góðum notum. http://www.infrapath.is/mapguide2009/fusion/templates/mapguide/borgarbyggd/
 
 

Share: