Landbúnaðarsafnið opnar formlega í Halldórsfjósi í dag

október 2, 2014
Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið opna á nýjum stað í Halldórsfjósi á Hvanneyri í dag, fimmtudaginn 2. október kl. 16.00.
Landbúnaðarsafn Íslands er að stofni til frá árinu 1940. Það var lengi hluti Bændaskólans á Hvanneyri sem varðveitti það og efldi. Safninu er ætlað að gera skil sögu og þróun íslensks landbúnaðar með því að varðveita gögn, gripi og aðrar minjar um hana og annast rannsóknir og fræðslu. Safnið er nú til húsa í Halldórsfjósi sem byggt var á árunum 1928 – 29 fyrir sjötíu mjólkurkýr og var þá annað stærsta fjós landsins.
Ullarselið, sérverslun með ullarvörur og vandað íslenskt handverk, flytur um leið í Halldórsfjós og opnar þar nýja verslun.
Í tilefni opnunarinnar flytja góðir gestir ávörp og boðið verður upp á tónlistarflutning, kaffi og kleinur. Allir velkomnir.
 

Share: