Lærdómssamfélag í Borgarbyggð

september 6, 2019

Starfsmenn Borgarbyggðar sem stunda nám á skólaliðabraut framhaldsskóla, háskólanám til leikskóla, grunnskóla, íþrótta- eða tónlistarkennaraprófs eða stunda framhaldsnám á háskólastigi geta sótt um styrk til Borgarbyggðar. Styrkurinn felst í því að starfsmenn halda launum þann tíma sem þeir sækja staðbundnar námslotur og vettvangsnám.

Rúmlega tuttugu starfsmenn Borgarbyggðar munu stunda nám með vinnu veturinn 2019-2020. Hefur nám þeirra bein áhrif inn í starf skóla með aukinni umræðu meðal kennara um gæði kennsluhátta og innleiðingu á nýjungum í námi og kennslu.

Með því að styrkja starfsmenn og kennara Borgarbyggðar til náms er sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum til að draga úr kennaraskorti sem er yfirvofandi á Íslandi á næstu árum ef ekkert verður að gert. Þess má geta að vel hefur gengið að fá menntaða kennara til starfa í leik- og grunnskólum Borgarbyggðar.


Share: