Á næstunni verða sýndir á sjónvarpsskjá í Safnahúsi um 60 ára gamlir kvikmyndaþættir,
bútar sem á sínum tíma voru teknir af Guðna Þórðarsyni (Guðna í Sunnu) að frumkvæði Borgfirðingafélagsins. Efnið er sýnt með góðfúslegu leyfi höfundar og fyrir tilstilli
Óskars Þórs Óskarssonar verktaka og kvikmyndagerðarmanns í Borgarnesi.
Eins og kunnugt er hefur Óskar sjálfur sinnt heimildamyndatöku í Borgarfjarðarhéraði um langt skeið og þannig lagt fram ómetanlegan skerf til varðveislu sögunnar.
Meðal efnis eru myndir frá róðri á bát frá Akranesi, þættir frá Þverár- og Oddstaðarétt frá því um 1950 og af heyskap með gömlum vélum á engjum Hvanneyri. Einnig myndir frá Snorrahátíð og Reykholtsskóla, frá Stórakroppi, Bæ og Hæli auk mynda frá mótum á Faxaborg og af gamla bænum á Borg á Mýrum. Nánari efnsiskrá má sjá með því að smella hér.
Kann Safnahús Óskari bestu þakkir fyrir gott samstarf um þetta skemmtilega verkefni.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir