Kínversk kveðja í Safnahúsi

september 1, 2009
Úr gestabókinni
Sýningin Börn í 100 ár sem sett var upp í Safnahúsi Borgarfjarðar í fyrra hefur vakið sterk viðbrögð þeirra sem hana sjá. Þetta á ekki bara við um Íslendinga heldur virðist sýningin höfða sterkt til erlendra gesta. Fyrir stuttu kom þar kínverskur ferðamaður sem ritaði góðar óskir í gestabók sýningarinnar. Um þetta birtist frétt í Morgunblaðinu s.l. laugardag, enda kveðjan fallega orðuð og ljóst að saga Íslands í ljósmyndum og munum hefur haft djúp áhrif á þennan langt að komna
Frá sýningunni Börn í 100 ár
gest. Hér er textinn birtur með góðfúslegu leyfi Hjörleifs Sveinbjörnssonar sem þýddi hann lauslega fyrir Safnahús:
Í langflestum gestabókum sést ekki kínverska. Ég er dálítið hróðugur yfir því að vera fyrsti Kínverjinn sem skrifar í þessa. Ég hef staldrað við á sýningunni í rúman klukkutíma. Hundrað ár úr Íslandssögunni hafa borið mér fyrir sjónir. Töfrastaðurinn Ísland er mér mjög hjartfólginn. Ég er þakklátur íslenskum vinum og snortinn yfir umhyggju þeirra og hlýju.
Ég á mér þá ósk að ævintýrið um Ísland haldi áfram og að þjóðinni farnist vel í landi sínu.
Kína
Tianjin
Biao Cun
2009. 08. 07
 

Share: