Kaupfélag Borgfirðinga fyrirtæki ársins

apríl 3, 2003

Páll S Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar afhendir Guðsteini Einarssyni kaupfélagsstjóra KB glæsilegan verðlaunagrip sem smíðaður er af Oddnýju Þórunni Bragadóttur í Borgarnesi.
Mynd: GE

Kaupfélag Borgfirðinga var valið fyrirtæki ársins í Borgarbyggð árið 2002. Það var bæjarráð Borgarbyggðar sem stóð að vanda fyrir útnefningunni og voru úrslitin kynnt við athöfn á Búðarkletti síðastliðinn mánudag. Við sama tækifæri var tveimur öðrum aðilum veitt viðurkenning fyrir að hafa lagt drjúgan skerf til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu að mati bæjarráðs. Borgarnesapótek fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að veita góða þjónustu á vægu verði og Katrín Magnúsdóttir í Munaðarnesi fékk sérstaka viðurkenningu fyrir heilladrjúgt frumkvöðulsstarf í ferðaþjónustu. Katrín hefur stuðlað að uppbyggingu sumarhúsabyggðar á jörðinni Munaðarnesi en þar er nú ein stærsta orlofshúsabyggð landsins.
Fyrirtæki ársins er útnefnt af bæjarráði Borgarbyggðar að fengnum tilnefningum frá Atvinnuráðgjöf Vesturlands og Verkalýðsfélagi Borgarness. Páll Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar sagði þegar hann afhenti Kaupfélagi Borgfirðinga sína viðurkenningu að félagið hafi lengi verið burðarás í atvinnulífi bæjarins og hafi náð að snúa vörn í sókn eftir mörg erfið ár.

Share: