Félagsbær verður safnaðarheimili

apríl 4, 2003

Félagsbær verður að safnaðarheimili fyrir Borgarneskirkju
Stjórn Verkalýðsfélags Borgarness hefur samþykkt kauptilboð Borgarneskirkju í Félagsbæ, hús verkalýðsfélagsins við Borgarbraut í Borgarnesi. Kaupin eru háð samþykki aðalfundar Verkalýðsfélagsins og aðalsafnaðarfundar Borgarneskirkju. Gert er ráð fyrir því að Borgarneskirkja fái húsið afhent í haust.
Að sögn Örnu Einarsdóttur, formanns sóknarnefndar er ætlunin að Félagsbær verði safnaðarheimili kirkjunnar. “Skrifstofur kirkjunnar verða fluttar þangað og salurinn verður nýttur fyrir safnaðarstarfið en með bættri aðstöðu er ætlunin að auka og efla safnaðarstarfið enn frekar.”
Fyrir nokkrum árum voru uppi áform um að byggja nýtt safnaðarheimili við hlið kirkjunnar og var búið að teikna viðbyggingu sem átti að vera að mestu niðurgrafin. “Við höfum ekki efni á þeim framkvæmdum en það þyrfti að fjölga verulega í sókninni til að þær hugmyndir gætu orðið af veruleika,” segir Arna.
 
Hyggjast byggja
Sveinn Hálfdánarson segir að ekki liggi fyrir hvert starfsemi verkalýðsfélagsins verði flutt. “Við erum að leita að húsnæði sem er eitthvað minna en það sem við erum í. Við höfum hinsvegar ekki fundið neitt sem passar okkur og því kemur til greina að byggja. Við höfum sótt um lóð í eldri bæjarhlutanum og bíðum eftir svörum frá bænum,” segir Sveinn.

Share: