Jólin bíða þín í Borgarbyggð

nóvember 6, 2020
Featured image for “Jólin bíða þín í Borgarbyggð”

Borgarbyggð vill skapa notalega jólastemmningu í sveitarfélaginu í aðdraganda jóla, þar sem jólaljósin, ljúfir tónar, fjölbreytt vöru- og þjónustuúrval, heitt kakó og blómstrandi menning koma til með að ráða ríkjum.

Í ár verður meira en nokkru sinni lagt upp úr góðri stemningu á aðventunni. Sveitarfélagið vill fara af stað með samstarfsverkefnið „Jólin bíða þín í Borgarbyggð“ þar sem lögð verður áhersla á að kynna verslanir og þjónustu í heimabyggð með markvissum hætti fram að jólum í prent- og ljósvakamiðlum og með stafrænni markaðssetningu.

Markaðsátakið er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða almenna kynningu á vöru- og þjónustuúrvali í sveitarfélaginu, opnunartímum, tilboðum og/eða öðru sem fyrirtæki vilja koma á framfæri. Hins vegar til þess að kynna aðventudagskrá í Borgarbyggð. Um er að ræða kjörið tækifæri fyrir þjónustuaðila til þess að halda aðventuviðburði, vera með tilboð, kynna lengri opnunartíma eða annað sem fyrirtæki hyggjast gera hvern sunnudag fram að jólum.

Markmiðið með markaðsátakinu er fyrst og fremst að fá íbúa í Borgarbyggð sem og nágrannasveitarfélögin til að gera jólainnkaupin í Borgarbyggð og skapa notalega jólastemmningu í sveitarfélaginu í aðdraganda jóla, þar sem jólaljósin, ljúfir tónar, fjölbreytt vöru- og þjónustuúrval, heitt kakó og blómstrandi menning koma til með að ráða ríkjum.

Markhópurinn er fyrst og fremst íbúar í Borgarbyggð. Auk þess mun markaðssetningin ná til sveitarfélaga á Vesturlandi og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Markaðsátakið er öllum fyrirtækjum að kostnaðarlausu.

Við óskum því eftir þjónustuaðilum sem vilja taka þátt í þessu verkefni með sveitarfélaginu. Skráning fer fram á netfanginu maria.neves@borgarbyggd.is og nánari upplýsingar gefur María Neves, samskiptastjóri í síma 433-7100.

Skráningarfrestur er til 27. nóvember n.k.


Share: