Fimmtudaginn 6. desember verður opið til kl. 20.00 í Safnahúsi. Við það tækifæri verður smásagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson lesin milli kl. 18 og 20 og er vonast til að einhverjir eigi leið í Safnahús þetta síðdegi til að hlýða á lesturinn eða hluta úr honum. Aðventa var fyrst lesin í Safnahúsi í fyrra og mæltist vel fyrir. Sagan er lesin af sjálfboðaliðum, í meistaralegri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal. Magnús var fæddur árið 1901 og lést í lok júlí árið 1955. Hann var blaðamaður og þingskrifari og lengi bókavörður við Bókasafn Hafnarfjarðar. Þýðingar Magnúsar áttu á sínum tíma mikinn þátt í að opna hinn alþjóðlega bókmenntaheim fyrir Íslendingum. Eins og kunnugt var var Gunnar Gunnarsson lengi búsettur erlendis og skrifaði á dönsku. Aðventa kom reyndar út í fyrsta sinn á þýsku og var það árið 1936. Ári síðar birtist verkið á dönsku og tveimur árum síðar á íslensku í þýðingu Magnúsar. Löngu síðar þýddi Gunnar Gunnarsson svo bókina sjálfur. Aðventa byggir á sögu Benedikts Sigurjónssonar sem nefndur var Fjalla-Bensi. Hann var frægur fyrir eftirleitir sínar undir jól og með sér hafði hann hundinn Leó og forustusauðinn Eitil. Sagan hefur öðlast sess sem sígild íslensk jólasaga og er lesin víða á þessum viðeigandi árstíma, einnig í Danmörku og í Þýskalandi auk upplesturs í Gunnarshúsi í Reykjavík og á Skriðuklaustri. Myndin var tekin við upplesturinn í fyrra, Sævar Ingi Jónsson les. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.