Jólaball í Borgarnesi milli jóla og nýárs

desember 15, 2008
Eftir nokkurra ára hlé gefst Borgnesingum kostur á að upplifa alvöru jólaball á ný. Það voru stjórnarkonur í foreldrafélagi leikskólans Klettaborgar sem ákváðu að eitthvað þyrfti að gera í þessum málum, og viðruðu hugmyndina um sameiginlegt jólaball fyrir öll leikskólabörn bæjarins við stjórn foreldrafélags leikskólans við Ugluklett. Það var samdóma álit allra í þessum stjórnum að þetta væri eitthvað sem verulega skorti, ekki síst í árferði sem nú ríkir í samfélaginu.
Því var farið í undirbúningsvinnu með það að markmiði að gera jólaball fyrir alla íbúa og gesti í Borgarnesi að veruleika. Í framhaldinu fór boltinn að rúlla, Menntaskóli Borgarfjarðar var tilbúinn að taka þátt sem og Lionsklúbburinn Agla.
Því verður alvörujólaball með tilheyrandi söng og dansi, kræsingum og jólasveinum, sunnudaginn 28. desember kl. 11:00 í sal Menntaskóla Borgarfjarðar. Allir velkomnir, frítt inn, kaffisala á staðnum.
Mynd: Helgi Helgason.

Share: