Íþróttamaður Borgarbyggðar árið 2008 útnefndur

febrúar 20, 2009
Að afloknum sigurleik Skallagríms á Tindastóli í körfunni í gærkvöldi var Íþróttamaður Borgarbyggðar árið 2008 útnefndur.
Það var Bjarki Pétursson, golfari sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Björn Bjarki Þorsteinsson formaður tómstundanefndar afhenti íþróttafólkinu viðurkenningar en tómstundanefnd hefur veg og vanda að kjörinu. Þá fékk Bjarki Pétursson auk þess viðurkenningu og styrk úr minningarsjóði Auðuns Hlíðkvists Kristmarssonar en þetta mun vera í fyrsta skipti sem sami einstaklingurinn hlýtur báðar þessar viðurkenningar.
Það eru félög og deildir í Borgarbyggð sem tilnefnir íþróttafólk til verðlaunanna og úr þeim hópi velur svo tómstundanefnd Íþróttamann ársins. (myndir með frétt S. Leifs)
Bjarki Pétursson_mynd S. Leifs
Eftirfarandi voru tilnefndir:
Hestamennska: Heiðar Árni Baldursson, Faxa er hestamaður ársins.
Frjálsar íþróttir: Sigmar Aron Ómarsson, Umf. Íslendingi og Orri Jónsson, Umf. Dagrenningu tilnefndir.
Tómstundanefnd valdi Sigmar Aron sem frjálsíþróttamann ársins.
Sund: Jón Ingi Sigurðsson, Umf. Skallagrími er sundmaður ársins.
Blak: Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Umf. Íslendingi er blakmaður ársins.
Badminton: Bjarki Pétursson, Umf. Skallagrími er badmintonmaður ársins.
Körfuknattleikur: Sigurður Þórarinsson, Umf. Skallagrími er körfuknattleiksmaður ársins.
Knattspyrna: Guðmundur Björn Þorbjörnsson, Umf. Skallagrími er knattspyrnumaður ársins.
Golf: Bjarki Pétursson, Golfklúbbi Borgarness er golfari ársins.
 
Landsliðsfólk verðlaunað.
Landsliðsfólk sem léku með landsliðum Íslands á síðasta ári var veitt viðurkenning:
Valur Orri Valsson, U15 ára unglingalandsliðið í körfuknattleik.
Bjarki Pétursson U15 unglingalandslið í golfi.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir – A- landslið kvenna í körfuknattleik.
Tinna Kristín Finnbogadóttir – Unglingalandsliðssæti í skák.
Hulda Rún Finnbogadóttir. – Unglingalandsliðssæti í skák.
 
Heiðursviðurkenning:
Loks var Símon Aðalsteinsson heiðraður fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta- og æskulýðsmála um langt árabil í héraðinu.
Hann hefur að öðrum ólöstuðum unnið fórnfúst og óeigingjarnt starf við uppbyggingu golfvallarins að Hamri.
Umf. Skallagrímur heiðraði einnig við þetta tækifæri Badmintondeild fyrir gott starf deilda á síðasta ári og Álfheiði Marinósdóttur fyrir dugnað við starf sitt í sunddeildinni.
Íþróttafólkinu og aðstandendum þeirra er óskað til hamingju með viðurkenningarnar, en þeim er ætlað að hvetja afreksfólkið til frekari dáða og ekki hvað síst sem hvatning til þeirra ungu og efnilegu sem á horfa, að æfa betur og stefna hátt að markmiðum sínum á íþróttasviðinu sem og öðrum markmiðum í lífinu.
 

Share: