Inga Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin í sumarvinnu við skráningu gæludýra í Borgarbyggð

júní 25, 2010
Borgarbyggð hefur ráðið Ingu Björk Bjarnadóttur í sumarvinnu í nokkrar vikur við að bæta skráningu á gæludýrum í sveitarfélaginu. Allt of algengt hefur verið að handsömuð strokudýr hafi verið óskráð. Undanfarnar vikur hefur hún unnið við að safna upplýsingum um gæludýr í þéttbýli í sveitarfélaginu og athuga hvort þau séu á skrá. Í ljós hefur komið að vitað er um 70 dýr sem ekki eru á skrá. Á næstunni verður haft samband við eigendur þeirra og þeir hvattir til að skrá dýrin og ljúka þannig málinu.
Samkvæmt samþykkt Borgarbyggðar um hunda- og kattahald er skylt að skrá öll dýr þeirra tegunda í sveitarfélaginu að undanskildum þeim dýrum sem eru á lögbýlum utan þéttbýlis. Skráning er forsenda þess að Borgarbyggð geti staðið við skyldur sínar vegna gæludýra. Auk þess fellur kostnaður á sveitarfélagið vegna gæludýraeignar íbúanna og eðlilegast að gæludýraeigendur greiði þann kostnað. Við skráningu er greitt lágt árlegt gjald, sem ætlað er að mæta þeim kostnaði og auk þess eru tryggingar og lögbundin árleg ormahreinsun innifalin í gjaldinu.
Eigendur óskráðra hunda og katta á þéttbýlisstöðum Borgarbyggðar eru hvattir til að skrá dýrin sín nú þegar. Árgjaldið er aðeins 11.000 kr. fyrir hunda og 5.500 kr. fyrir ketti og mun lækka að raungildi eftir því sem fleiri dýr koma á skrá. Það er því réttlætismál gagnvart þeim gæludýraeigendum sem hafa skráð sín dýr að allir hunda- og kattaeigendur taki þátt í að greiða þann kostnað sem af gæludýrahaldinu hlýst.
 
Gæludýraeigendur eru hvattir til að kynna sér lög og reglur um gæludýrahald á heimasíðu Borgarbyggðar undir hreinlætismál http://www.borgarbyggd.is/starfsemi/hreinlaetismal/
 
Þeir sem vilja benda á óskráð dýr geta hringt í Ingu Björk í síma 433-7100 eða skrifað henni á netfangið dyraeftirlit@gmail.com.
 
 

Share: