Íbúum fjölgar í Borgarbyggð

desember 21, 2001

Hagstofa Íslands hefur gefið út bráðabirgðatölur um mannfjölda á Íslandi 1. desember 2001. Íbúum á Vesturlandi fjölgaði um 183 eða 1,3% milli áranna 2000 og 2001 sem er yfir landsmeðaltali. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var íbúafjöldi í Borgarbyggð 2.523 þann 1. desember 2001. Hinn 1. desember 2000 voru íbúar Borgarbyggðar 2.468 og varð því fjölgun milli ára um 55 manns eða 2,2%. Fjölgunin er vel yfir landsmeðaltali sem var 1,2% aukning í mannfjölda milli ára.

Á milli áranna 1999 og 2000 fjölgaði um 47 íbúa í Borgarbyggð sem var um 1,9% aukning. Á tveimur árum hefur íbúum Borgarbyggðar því fjölgað um liðlega 100 eða um 4,2%. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 2,7%.
Íbúum í Borgarnesi fjölgaði úr 1.740 í 1.775 eða um 35 milli áranna 2001 og 2000 sem er 2,0% aukning. Í dreifbýlinu var fjölgunin á sama tíma 20 manns eða 2,7% aukning sem verður rakinn til fjölgunar íbúa á Bifröst.
Með þessari fjölgun íbúa í Borgarbyggð hefur verið slegið met áranna 1991 – 1993 þegar íbúafjöldinn náði liðlega 2.500 manns, þ.e. í þeim sveitarfélögum sem þá voru og nú mynda Borgarbyggð. Hæst fór íbúatalan í 2.514 árið 1993 en er eins og áður segir 2.523 þann 1. desember 2001.


Share: