ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDASKÓLINN

janúar 7, 2002

Í næstu viku, dagana 14. til 18. janúar, hefjast að nýju námskeið á vegum Íþrótta- og tómstundaskólans. Þátttaka á námskeiðunum tveimur fyrir jól var mjög góð en 72% nemenda á yngsta stigi hafa sótt eitt eða fleiri námskeið og flestir ef ekki allir verið mjög ánægðir.

Á næstu 6 vikum verða fjögur námskeið í boði; kirkjan, skátar, fimleikar og tónlist. Hér getur þú sótt stundaskrá.

Kirkjan
Kirkjustarfið verður eins og fyrr í Borgarneskirkju á miðvikudögum (16., 23., og 30. jan. og 6., 13. og 20. feb.) klukkan 14:20-15:10 fyrir 1. – 4. bekk. Leiðbeinandi er Jónína Erna Arnardóttir tónlistarkennari. Kirkjustarfið er gjaldfrjálst.

Skátar
Skátastarfið verður í grunnskólanum á miðvikudögum (16., 23., og 30. jan og 6., 13. og 20. feb) klukkan 14:10-15:00 fyrir 1. og 2. bekk en klukkan 15:10-16:00 fyrir 3. og 4. bekk. Leiðbeinandi er Guðbjörg Sólveig Sigurðardóttir. Verð: 900 krónur.
ATH! Vegna eðlis skátastarfsins er nauðsynlegt að takmarka fjölda nemenda á námskeiðinu. Hægt verður að taka við 20 nemendum í 1.-2. bekk og 30 nemendum í 3.-4. bekk. Það er því áríðandi að foreldrar sendi börnin með skráningarblað í skólann sem fyrst og að aðeins þeir sem skráðir eru mæti á námskeiðin. Verði einhver svo óheppinn að komast ekki að verður hann settur á biðlista og gengur fyrir á næsta námskeið.

Fimleikar
Fimleikar með “erobik-ívafi” verða í íþróttahúsinu á fimmtudögum (17., 24. og 31. jan. og 7., 14. og 28. feb.) klukkan 14:10-15:00 fyrir 1. og 2. bekk og klukkan 15:00-15:50 fyrir 3. og 4. bekk. Kennari er Sigrún Ögn Sigurðardóttir. Verð: 1.500 krónur.

Tónlistarsmiðja
Tónlistarsmiðja verður í grunnskólanum á föstudögum (18. og 25. jan., 1., 8. og 15. feb. og 1. mars) klukan 13:10-14:00 fyrir 1. og 2. bekk en klukkan 14:00-14:50 fyrir 3. og 4. bekk. Kennarar eru Birna Þorsteinsdóttir og Viðar Guðmundsson tónlistarkennarar. Verð: 900 krónur.
ATH! Ef þátttaka verður lítil (færri en 15) verður fyrri tíminn felldur niður og öllum kennt saman í seinni tímanum.

Skólaskjól
Skólaskjólið verður opið eins og verið hefur, frá klukkan 13 – 17 alla skóladaga. Hægt er að skrá nemendur í skjólið í 1 til 4 klukkutíma á dag. Því er skólaskjólið góð lausn ef eyða myndast milli skólaloka og námskeiðstíma.

Skráning
Skráning í námskeið stendur yfir á skrifstofu grunnskólans til föstudagsins 11. janúar. Einnig er hægt að senda skráningu með tölvupósti til ritara skólans, netfangið er heiddis@ismennt.is. Hér getur þú sótt skráningareyðublað.

Akstur í sveitir
Föstudaginn 11. janúar verður skipulagður akstur í sveitirnar fyrir þá nemendur úr dreifbýlinu sem skráðir eru á námskeið á vegum Íþrótta- og tómstundaskólans. Það er því nauðsynlegt að skráning liggi fyrir eigi síðar en þá.
Á síðasta ári voru samþykktar úthlutunarreglur um styrki vegna aksturs barna og unglinga úr dreifbýli á skipulagðar íþróttaæfingar á vegum félagasamtaka í Borgarbyggð. Nánari upplýsingar um þessa styrki veita Indriði Jósafatsson og Ásthildur Magnúsdóttir í síma 437-1224 eða í tölvupósti; indridi@borgarbyggd.is og asthildur@borgarbyggd.is.


Share: