Hvannir stóðu sig vel á öldungamóti í blaki

maí 3, 2007
Um síðastliðna helgi fór fram öldungamót í blaki. Hvannir, frá Hvanneyri, áttu þrjú kvennalið á mótinu en í 30 ára sögu félagsins hefur slíkt aldrei gerst áður. Gríðarlegur blakáhugi er á Hvanneyri og nágrenni og skilaði það sér í góðum árangri á mótinu. Þess má geta að fyrir einungis fjórum árum þurfti að fá lánaða konu úr öðru liði til þess að Hvannir gætu komist með eitt lið á öldungamót.
Til að öðlast keppnisrétt á öldungamóti þurfa keppendur að vera 30 ára eða eldri. Öll lið Hvanna stóðu sig með mikilli prýði, bæði innan vallar sem utan. Lið öðlinga (40 ára og eldri) sýndi mikla snilld á vellinum og spiluðu mjög prúðmannlega. Hvannir B (30 ára og eldri) voru með frábæra leikhæfni á vellinum og sýndu takta sem ekki hafa sést áður. Þær höfnuðu í 4. sæti í sinni deild. Hvannir A (30 ára og eldri) sýndu stórkostlega samvinnu inn á vellinum og börðust um alla bolta og skilaði það þeim 2. sæti í sinni deild og unnu þær sig upp um deild fyrir vikið.

Share: