Fundur var haldinn um kaldavatnsmál í Reykholtsdal í félagsheimilinu Logalandi þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Fundargestir voru vel á fjórða tug. Frummælendur voru þeir Jakob Friðriksson og Hreinn Frímannsson frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þeir gerðu grein fyrir því hvers vegna fallið hefur verið frá Rauðsgilsveitu og skýrðu frá því að hönnun væri hafin á nýrri veitu fyrir Reykholtsdal.
Í þeirri hönnun er gert ráð fyrir, að vatninu verður veitt eftir vatnslögn úr Grábrókarveitu þvert yfir Stafholtstungur og þaðan í Reykholtsdal. Hinsvegar hefur fundist vatn nýverið við Birkihlíð í Reykholtsdal. Áður en hafist verður handa við áðurnefnda framkvæmd þá verður athugað hvort nægjanlegt vatn sé í Birkihlíð og hvort gæði vatnsins séu góð. Ef svo er þá er líklegt að sá kostur sé vænlegri fyrir Reykholtsdal heldur en að veita vatninu alla leið frá Grábrókarveitu. Niðurstöður rannsóknar á vatninu í Birkihlíð munu liggja fyrir snemma árs 2008.
Mynd með frétt: Björg Gunnarsdóttir