Húsnæðisbætur

desember 16, 2016
Featured image for “Húsnæðisbætur”

Ný lög um húsnæðisbætur taka gildi um áramót. Helsta breytingin felst í því að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækkar eftir því sem fleiri eru í heimili óháð aldri. Þá getur foreldri sem fær barnið sitt til sín að lágmarki í 30 daga á ári skráð barnið sitt sem heimilismann jafnvel þó barnið sé með lögheimili hjá hinu foreldrinu.

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem ætlaðar eru til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði. Markmið laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.

Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins en kerfið er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Hin nýja stofnun húsnæðisbóta er staðsett á Sauðárkróki. Búið er að opna heimasíðuna, www.husbot.is, þar sem hægt er að sækja um húsnæðisbætur en þar má einnig finna reiknivél og gagnlegar upplýsingar.  

Sérstakar húsaleigubætur verða ennþá til, en munu frá og með 1. janúar 2017 heita sérstakur húsnæðisstuðningur. Sveitarfélögin taka áfram við umsóknum um sérstakan húsnæðisstuðning og húsnæðisstuðning til foreldra/forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða á námsgörðum fjarri lögheimili.


Share: