Fjárhagsáætlun 2017 – 2020

desember 13, 2016
Featured image for “Fjárhagsáætlun 2017 – 2020”

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 og rammaáætlun fyrir árin 2018-2020 á fundi sínum fimmtudaginn 8. desember sl.  Fjárhagsáætlun ber með sér að sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega og ágætt jafnvægi er í rekstri.

 

Fjárhagsáætlun 2017-2020 samþykkt

 

Helstu forsendur og niðurstöður fjárhagsáætlunar eru sem hér segir:

Útsvarshlutfall er 14,52%.

Fasteignaskattur: A-skattur: 0,47% (lækkun um 0,02%stig), B-skattur 1,32% og C-skattur 1,65%.

Íbúaþróun hefur verið 2,0% aukning íbúa síðustu tvö árin.

Gjaldskrár hækka almennt um 2,4% aðrar en þær sem taka mið af byggingarvísitölu en þær hækka um 3,0%. Gjald íþróttamiðstöðva fyrir einstaka miða hækkar úr 600 kr. í 900 kr. Er það gert til að mæta aukinni fjölgun ferðafólks í sundlaugar. Á hinn bóginn verður gjaldfrjálst fyrir börn að 10 ára aldri í íþróttamiðstöðvar sveitarfélagsins.

Launakostnaður er um 61% útgjalda sveitarfélagsins. Um 58% heildartekna renna til greiðslu launa.

Heildartekjur samstæðu eru áætlaðar 3,625 m.kr. á árinu 2017 en heildartekjur A-hluta eru áætlaðar 3.275 m.kr.

Heildargjöld samstæðu eru áætlaðar 3.425 m.kr. á árinu 2017 en heildargjöld A-hluta eru áætlaðar 3.135 m.kr.

Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætlaðar 125 m.kr. en 60 m.kr. hjá A-hluta.

Rekstrarafgangur samstæðu að teknu tilliti til fjármagnsliða og afskrifta eru áætlaðar 76 m.kr. en 80 m.kr. hjá A-hluta.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu eru áætlaðar 4.498 m.kr. í árslok 2017 en 2.593 hjá A-hluta. Það er lækkun um nær 130 m.kr. hjá hvorum hluta fyrir sig milli ára.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er áætluð 308 m.kr. Afborganir langtímalána eru 243 m.kr. fyrir samstæðu og 196 m.kr. fyrir A-hluta. Ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu.

Handbært fé er áætlað í árslok 2017 271 m.kr. hjá samstæðu en 192 m.kr. hjá A-hluta.

Veltufjárhlutfall er áætlað 1,03 hjá samstæðu en 0,99 hjá A-hluta.

Veltufé frá rekstri er áætlað 8,5% hjá samstæðu en 8,3% hjá A-hluta.

Skuldahlutfall samstæðu er 124,1% á árinu 2017. Áætlað er að það verði komið í um 100% á árinu 2020 og skuldaviðmið verði um 95% í lok tímabilsins.

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á árinu 2017 eru viðbygging við Grunnskólann í Borgarnesi. flutningur leikskólans að Hnoðrabóli í Reykholtsdal að Kleppjárnsreykjum og gatnagerð í Borgarnesi auk ýmissa minni verkefna.

Vinna við undirbúning og afgreiðslu fjárhagsáætlun er fyrri hluti þess starfs sem fjárhagsáætlun byggir á. Hinn hlutinn er að fylgja henni eftir þannig að hún gangi upp. Það hefst með virku kostnaðareftirliti og reglulegri eftirfylgni með þróun rekstrarins allt árið. Það eru lykilatriði, því ef upp koma óvænt tilvik sem hafa áhrif á reksturinn þarf að vera svigrúm til að mæta því og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Markmið sveitarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins er að reksturinn sé í góðu jafnvægi og að þeim áætlunum sem samþykktar eru sé fylgt eftir.


Share: