Hreinsun rotþróa í Borgarbyggð

maí 6, 2008
Nú um þessar mundir er að hefjast aftur vinna við rotþróarhreinsun í Borgarbyggð en eftir útboð á sl. ári var samið við nýjan verktaka, Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands ehf, um losun rotþróa í sveitarfélaginu og gildir samningurinn til ársins 2012. Samningurinn miðar við að hver rotþró sé tæmd tvisvar á samningstímabilinu og eiga að líða sem næst 3 ár á milli tæmingar á hverri þró.
Til þess að hreinsunin geti gengið hratt og auðveldlega fyrir sig þurfa húseigendur að tryggja óheft aðgengi að lóðum sínum og sjá til þess að hlið séu ólæst. Til að hægt sé að fjarlægja seyru úr öllum hólfum rotþróar þarf að lágmarki að vera 4 tommu (100mm) stútar á öllum hólfum hennar. Nauðsynlegt er einnig að merkja staðsetningu rotþróar vel t.d. með veifu eða flaggi, til að auðvelda hreinsunarverktakanum að finna þær.
Rétt er að árétta að þegar rotþró er tæmd er allt fast og fljótandi seyruefni fjarlægt úr öllum hólfum hennar en síðan er efninu dælt í gegnum skilju á dælubíl, þar sem fastefnin eru skilin frá, en vatni sem frá þessu ferli kemur er dælt aftur ofaní rotþróna, til þess að virkni hennar sé áfram tryggð. Uppdældu efni úr rotþró er síðan ekið til urðunar s.s. í Fíflholt.
Rotþróarhreinsunin er innifalin í árgjaldi sem sveitarfélagið innheimtir samhliða fasteignagjöldum og tekur árgjaldið mið af því að um sé að ræða eina losun á þriggja ára fresti.
Þurfi húseigandi að fá auka losun rotþróar á tímabilinu, umfram reglubundna losun á þriggja ára fresti, þarf að greiða sérstaklega fyrir það skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
 

Share: