Hljómsveit, söngleikur og tónleikar

janúar 26, 2007
Ýmislegt skemmtilegt er á döfinni hjá Tónlistarskóla Borgarfjarðar á næstunni. Búið er að koma á fót hljómsveit við skólann og eru í henni nemendur sem eru að læra á blásturshljóðfæri og strengjahljóðfæri. Einnig munu nemendur á önnur hljóðfæri spila með auk þess sem fyrrverandi nemendum skólans og þeim einstaklingum í héraði sem lært hafa á hljóðfæri er einnig boðið að vera með. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Ólafur Flosason. Hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar eru á öllum aldri.
Í næstu viku verður svo byrjað að æfa söngleik sem settur verður upp í skólanum um mánaðarmótin febrúar-mars. Að þessu sinni verður „Mjallhvít og dverganir sjö“ með tónlistinni úr Walt Disney teiknimyndinni. Birna og Theodóra Þorsteinsdætur munu stjórna söngleiknum.
Í byrjun febrúar er svo stefnt á að nemendur skólans í framhaldsstigi og miðstigi komi fram á tvennum tónleikum. Áætlaðar tímasetningar eru: mánudaginn 5. febrúar kl. 20 – framhaldsnemendur og föstudaginn 9. febrúar kl. 18.00 – miðstigsnemendur.

Share: