Heimsókn frá Vík í Mýrdal

júní 13, 2008
Það er hress hópur frjálsíþróttakrakka frá Vík í Mýrdal sem dvalið hefur í æfingabúðum í Borgarnesi í sól og blíðu undanfarna fjóra daga. Helstu meiðslin sem þau hafa hlotið við æfingar er sólbruni
og létu þau sig hafa það eftir nokkra brúsa af sólarvörn og kælikremi.
Íþróttafólkið er ánægt með dvölina enda frjálsíþróttaaðstaða á Skallagrímsvelli eins sú besta á landinu og synd hve frjálsar íþróttir eru í mikilli lægð miðað við þessa fínu aðstöðu.
Í dag er keppnisdagur hjá Mýrdælingum í nokkrum greinum á vellinum áður en þau taka sundsprett og síðustu ferðirnar í vatnsrennibrautunum áður en haldið verður heim.
Þetta frábæra íþróttafólk kom einnig í fyrra í æfingabúðir í Borgarnes og hafa þegar ákveðið að mæta á næsta ári.
Hópurinn fær hrós dagsins fyrir kurteisi í framkomu, glaðværð og góða umgengni.
 
Mynd: Indriði Jósafatsson

Share: