Vinnuskóli Borgarbyggðar hefur hafið störf

júní 12, 2008
Vinnuskóli Borgarbyggðar var settur þann 4. júní í félagsmiðstöðinni Óðali. Vinnuskólinn er fyrir unglinga í 8. -10. bekk. Í sumar starfa 64 unglingar í vinnuskólanum á eftirfarandi stöðum: 4 í Reykholti, 4 á Bifröst, 13 á Hvanneyri, 25 í Borgarnesi, 5 í kofasmíði Tómstundarskólans, 2 á Leikskólanum Uglukletti, 2 á Leikskólanum Klettaborg, 4 á Golfvellinum, 1 í Safnahúsinu, 2 í Skallgrímsgarði og 2 í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Til viðmiðunar má nefna það að fyrir þremur árum síðan störfuðu 96 unglingar í unglingavinnunni í Borgarnesi.
Margt hefur breyst m.a. það að unglingarnir leita í aðra vinnu yfir sumarið og þá aðallega í verslanir og sjoppur. Sökum þess hve fáir eru í unglingavinnunni nú hefur verið ákveðið að bjóða ekki upp á útselda vinnu eins og gert hefur verið undanfarin ár. Hlutverk starfsmanna vinnuskólans er að reyta upp illgresi, gróðursetja blóm, vinna við gerð stíga og vökvun þegar ekki rignir. Í Borgarnesi er gengið um bæinn á mánudögum og tínt upp það rusl sem safnast hefur saman um helgar. Vinnuskólinn tekur mikinn þátt í undirbúningi við 17. júní og eiga því sinn þátt í því að gera þann dag skemmtilegan með allskyns heimatilbúnum leikföngum fyrir börnin, tónlistaruppákomum og umsjón með tæknimálunum.
Til tilbreytingar frá hefðbundnum vinnudögum stendur Vinnuskóli Borgarbyggðar m.a. fyrir skemmtilegum íþrótta- og leikjadegi við íþróttahúsið í Borgarnesi og býður upp á vinnuskólaferð í júlí.
Allir sem starfa í vinnuskólanum utandyra eru í vestum merktum Borgarbyggð og Sparisjóði Mýrasýslu. Akandi vegfarendur eru beðnir um að taka sérstakt tillit til þeirra þar sem þau eru að vinnu við götur og gangstéttir. Vinnuskólakrakkarnir vinna hörðum höndum við að fegra umhverfi þéttbýlisstaða Borgarbyggðar. Þetta sumar fer vel af stað og lofar góðu þrátt fyrir að unglingarnir í vinnuskólanum séu í sögulegu lágmarki. Þrostkaþjálfi mun kenna þeim líkamsbeitingu við hin ýmsu störf.

Share: