Heimferð brúðuleikhús í Borgarnesi

júní 13, 2022
Featured image for “Heimferð brúðuleikhús í Borgarnesi”

Brúðuleiksýningin Heimferð er nú á ferð um landið og verður sýnd í Borgarnesi þriðjudaginn 14. júní nk. frá kl. 13:00 – 20:00. Brúðuleikhúsið Handbendi stendur fyrir sýningunni en Heimferð er ör-leikhússupplifun í húsbíl fyrir lítinn áhorfendahóp í senn en aðeins átta áhorfendur komast inn á hverja sýningu. Sýningin er heillandi og fyrir alla aldurshópa. Mörg listform sameinast í sýningunni en notast er við hreyfimyndir, tónlist, leiklist, brúðulist, hljóð og mynd. Skoðaður er munurinn á því að búa í hreyfanlegu heimili sem marga dreymir um að gera, samanborið við þá upplifun að búa á slíku heimili í krísuástandi þvert gegn eigin vilja. Áhorfendum er fylgt í gegnum opna sögu sem þeir móta sjálfir um leið og þeir fá að gægjast inn í ýmsa heima.

Handbendi er margverðlaunaður brúðuleikhúshópur með aðsetur á Hvammstanga og handhafi Eyrarrósarinnar. Verkefnið er hluti af Listahátíð í Reykjavík og er unnið í samstarfi við ProFit Arts í Tékklandi og Arctic Culture Lab í Grænlandi og Noregi. Samstarfsaðilarnir þrír hafa allir skapað farandleikhús í sínu heimalandi og unnið er að sýningum í öllum löndum í sumar. Verkefnið er styrkt af EES- /Noregsstyrkjum, sviðslistasjóði og launasjóði listamanna.

Miða, nánari upplýsingar um sýningarstaði og tíma, má nálgast á tix.is.

Sýnt verður fyrir utan Hjálmaklett kl. 13:00, 14:00, 15:00, 16:30, 17:30, 18:30 og 19: 30.


Share: