Heilsueflandi framhaldsskóli – gull til Menntaskólans

maí 27, 2013
Menntaskóli Borgarfjarðar hefur hlotið tvenn gullverðlaun fyrir verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli á skólaárinu 2012 – 2013. Verðlaunin eru fyrir framúrskarandi árangur; í fyrsta lagi við að tryggja tækifæri nemenda og starfsfólks til hreyfingar og í öðru lagi fyrir aðgengi nemenda og starfsfólks að hollum mat.
 
Heilsueflandi framhaldsskóli byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.
 
Þegar skóli hefur uppfyllt lágmarkskröfur gátlista Heilsueflandi framhaldsskóla öðlast hann bronsviðurkenningu, en silfur og gull eru í boði fyrir þá skóla sem uppfylla fleiri atriði gátlistanna og strangari kröfur. Gátlistarnir eru þróaðir af stýrihópum, sem taka faglegt tillit til þess sem verkefnið felur í sér, og eru jafnframt að hluta til unnir í samvinnu við skólana vegna umhverfis, aðstæðna og áherslna skólanna. (af vef MB)
 

Share: