Tónlistarskóli Borgarfjarðar fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir. Skólinn var stofnaður 7. september 1967 af Tónlistarfélagi Borgarfjarðar. Theodóra Þorsteinsdóttir hefur verið skólastjóri frá 1991 og starfa níu kennarar við skólann og 162 nemendur stunda tónlistarnám á haustönn. Starf skólans fer fram í húsnæði skólans að Borgarbraut 23 Borgarnesi, en einnig er kennt á starfstöðvum Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Starf skólans er fjölbreytt, fyrir utan hefðbundna kennslu eru haldnir tónleikar og tónfundir, kennarar og nemendur fara nokkrum sinnum yfir veturinn og spila og syngja fyrir eldri borgara og koma víða fram við ýmis tækifæri. Skólinn tekur þátt í tónmenntakennslu í Borgarnesi og er einnig í samstarfi við UMSB með tónsmiðjur.
Nú á tímamótum verður eitt og annað gert til hátíðarbrigða. Á afmælisdaginn var skólinn með opið hús og tónleika. Fjöldi kom og heimsótti skólann og tónleikarnir voru vel sóttir. Stærsta verkefni afmælisársins er söngleikurinn Móglí sem settur verður upp í Hjálmakletti í nóvember. Um fimmtíu manns koma fram í söngleiknum og eru á aldrinum sjö til rúmlega sextugs. Söngleikurinn Móglí er eftir sögum R. Kipling „Jungle Book“ og er leikgerðin eftir Illuga Jökulsson og tónlistin að mestu eftir Óskar Einarsson. Leikstjóri sýningarinnar er Halldóra Rósa Björnsdóttir og Theodóra Þorsteinsdóttir tónlistarstjóri. Kennarar Tónlistarskólans taka flestir þátt í sýningunni, eru ýmist í hlutverkum eða í hljómsveitinni.
Það hefur verið góð stemning og fjör á æfingum og tilhlökkunin er mikil fyrir frumsýningunni sem verður föstudaginn 24. nóvember næstkomandi kl. 18:00 í Hjálmakletti Borgarnesi.
Mynd: Þorsteinn Logi Þórðarson leikur Móglí yngri og Bergur Eiríksson leikur Móglí eldri