Háskólaráð Borgarfjarðar stofnað

apríl 6, 2004

Neðri röð frá vinstri: Páll S Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggð, Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans, Linda B Pálsdóttir sveitarstjóri Borgarfjarðarsveit, Magnús B. Jónsson rektor Landbúnaðarháskólans og Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu. Efri röð frá vinstri: Stefán Kalmansson fjármálastjóri Viðskiptaháskólans og Torfi Jóhannesson rannsóknastjóri við Landbúnaðarháskólann.

Í Borgarfjarðarhéraði eru starfandi tveir háskólar, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Landbúnarháskólinn á Hvanneyri, og hefur starfsemi þeirra stöðugt verið að eflast á undanförnum árum. Þá hefur þekkingarstarfsemi verið að vaxa í Reykholti í tengslum við Snorrastofu, sem er rannsóknarstofnun í miðaldafræðum. Sveitarfélögin Borgarbyggð og Borgafjarðarsveit hafa stutt við þessa uppbyggingu með margvíslegum hætti.
Í því skyni að auka samstarf þessara aðila var ákveðið að stofna til formlegs samstarfsvettvangs “Háskólaráðs Borgarfjarðar”. Aðild að ráðinu eiga Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Snorrastofa í Reykholti og sveitarfélögin Borgarfjarðarsveit og Borgarbyggð. Megin markmiðið með stofnun ráðsins er að skapa samráðsvettvang fyrir þessa aðila og stuðla að jákvæðri byggðaþróun í Borgarfirði. Með samstarfi háskólanna, Snorrastofu og sveitarfélaganna styrkist Borgarfjörður sem mennta- og menningarsvæði. Myndarlegri rannsókna- og endurmenntunstarfsemi verður til þess að atvinnulíf í Borgarfirði styrkist og stuðlar um leið að aukinni kynningu á héraðinu. Síðast en ekki síst verður ráðið öflugur málsvari út á við fyrir stofnaðila.
Háskólaráði Borgarfjarðar er ætlað að vera sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna og ofangreindra menntastofnana til eflingar á ímynd héraðsins sem þekkingarsamfélags og samfélags þar sem fólkið og þarfir þess og langanir eru hafðar að leiðarljósi; þar sem frumkvæði og nýsköpun fái notið sín í búsetuvænu samfélagi.

Share: