Háskólaráð Borgarfjarðar: Sameiginlegir hagsmunir

september 13, 2010
Háskólaráð Borgarfjarðar er samstarfsvettvangur Landbúnaðarháskóla Íslands, Viðskiptaháskólans á Bifröst og Borgarbyggðar. Einnig situr fulltrúi Snorrastofu í ráðinu. Háskólaráðið hefur komið að fjölmörgum málum og má þar nefna að á sínum tíma kviknaði hugmyndin að Menntaskóla Borgarfjarðar í því. Ragnar Frank Kristjánsson forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar og lektor við LbhÍ sagði að á fundi í Háskólaráði Borgarfjarðar hefði verið fjallað um samskipti og sameiginleg verkefni sveitarfélagsins og háskólanna. Auk þess hefðu farið fram afar gagnlegar umræður um hlutverk ráðsins í framtíðinni. “Umræðurnar voru mjög góðar og einlægur vilji til að vinna saman að sameiginlegum hagsmunum,” sagði Ragnar og bætti því við að fram hefði komið, að háskólaráðið þyrfti að setja sér ný markmið, sem meðal annars gætu tengst stofnun vísindagarða og sprotafyrirtækja.


 
Hvernig sér Ragnar fyrir sér að ráðinu verði beitt? Ragnar sagði að innan háskólaráðs skiptust fulltrúar á skoðunum og í framhaldi af því ynnu þeir saman að málum sem kæmu öllum til góða. „Regluleg samskipti þeirra sem eru í forsvari fyrir Borgarbyggð, Snorrastofu og skólunum eru mikilvæg,“ sagði Ragnar.

Ragnar sagði að stefna Borgarbyggðar gagnvart háskólastarfi í Borgarfirði þyrfti að vera markvissari – og þá ekki síst þegar sótt væri að háskólunum. „Þetta eru stórir vinnustaðir og mikilvægir samfélaginu. Með samvinnu og samstarfi geta háskólarnir til dæmis laðað til sín fundi og ráðstefnur. Með tilkomu hins nýja menningarsal Menntaskóla Borgarfjarðar er nú komin aðstaða að vera með stórar ráðstefnur. Til að hýsa allt að 100 til 200 þátttakendur þarf sveitarfélagið að fá eigendur gistirýmis í sveitarfélaginu til að vinna saman.“

Ragnar sagði allar forsendur fyrir því að samvinna skóla og sveitarfélagsins yrði aukin. „Við munum nýta sameiginlega krafta til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld. Hér má nefna menntamála-, fjármála- og samgönguráðherra. Sveitarfélagið verður að kynna betur þjónustu sína gagnvart námsfólki á Bifröst og Hvanneyri. Ég nefni t.d. bókasöfn, íþróttamannvirki og menningarstarfsemi. Ég sé líka fyrir mér þann möguleika að vinnum saman að upplýsingagjöf til íbúa Borgarbyggðar og landsmanna allra. Möguleikar Borgarbyggðar eru óþrjótandi enda er kjörorð sveitarfélagins „,,Menntun, menning og saga”. Í héraðinu eru góðar menntastofnanir – menning til fyrirmyndar og merkustu atburðir Íslandssögunnar við hvert fótmál. Þetta eigum við að nýta okkur,“ sagði Ragnar Frank Kristjánsson að lokum.

Share: