Greiðslu krafist fyrir smalamennskur og hagagöngu

ágúst 20, 2003
Pétur Diðriksson
Bræðurnir Pétur og Vilhjálmur, Diðrikssynir, bændur á Helgavatni í Þverárhlíð hafa um nokkur skeið staðið í baráttu gegn ágangi frá sauðfé úr nágrenninu og eru ósáttir við að þeir, sem landeigendur, skuli algjörlega réttlausir gagnvart annarra manna búfé.
Í síðustu viku létu þeir smala tún á Helgavatni og lögðu hald á aðkomufé sem þar var, alls 26 kindur. Þeir tilsögðu féð en settu þá skilmála að féð yrði ekki látið af hendi nema gegn greiðslu á áföllnum kostnaði þ.e. fyrir smalamennsku og hagagöngu en upphæðin var um þrjátíu þúsund krónur.
Greiðsla var ekki innt af hendi en tveimur dögum síðar afhentu Helgavatnsbændur kindurnar sínum eigendum með þeim fyrirvara að umræddur reikningur yrði innheimtur eftir eðlilegum leiðum. “Við óskuðum eftir því við eigendur fjárins að því yrði smalað en því var neitað. Við buðum þá fram okkar aðstoð en því var einnig neitað og því brugðum við á það ráð að láta smala en við teljum út í hött að við berum sjálfir kostnaðinn af því,” segir Pétur Diðriksson bóndi á Helgavatni.
“Við höfum kannað okkar rétt og það liggur ljóst fyrir að lög er varða búfjárhald stangast á en okkur sýnist samt sem áður að við sem landeigendur séum algjörlega réttlausir. Við létum því kindurnar af hendi en við munum væntanlega fylgja þessu máli eftir. Það virðist ljóst að þar sem lausaganga er ekki heimil, og lausaganga er skilgreind sem beit búfjár í landi annars án leyfis, að þar erutu algjörlega réttlaus nema þú girðir landið og lokir algjörlega af. Það er mín tilfinning að sem búfjáreigandi getir þú látið skepnurnar valsa hvert sem er, á hvern sem er og landeigendur hafa ekkert um það að segja.
 
Sauðaþjófnaður?
Ólafur Dýrmundsson landnýtingaráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands segir að mjög ákveðnar regur gildi um um girðingar, lausagöngu og vörslu búfjár. Hann segir grundvallaratriði að land sé girt ef landeigendur ætli að krefjast bóta vegna ágangs. Þá segir hann landeigendur hafa heimild til að smala sín lönd en ekki til að halda fénaðinum inni né rétt á greiðslu eða einhverskonar lausnargjaldi. Slíkt geti einfaldlega flokkast sem sauðaþjófnaður.
 
Kveinstafir út í loftið
“Ég smala ekki fyrir Pétur, hvorki á Helgavatni eða þeim þremur eyðijörðum sem hann hefur yfir að ráða,” segir Sigurður Bergþórsson bóndi á Höfða í Þverárhlíð en hann er eigandi kindanna sem gómaðar voru í túninu á Helgavatni. “Helgavatnsmenn sinna engum skildum sem landeigendur, hvorki fjallskilum, smalamennskum eða girðingum og fé verður jafnvel úti þar eða kemur ekki fyrr en langt er liðið á vetur. Pétur kom hér og talaði um að við myndum smala en ég sagðist myndu taka féð um leið og það væri komð í aðhald, óskemmt. Þess ber reyndar að geta að Höfði og Helgavatn liggja ekki saman. Féð fór í gegnum landið á Grjóti en varslan milli Grjóts og Helgavatns er bara Litla Þverá og kindurnar hafa lokkast af nýrækt í Helgavatnslandi og dagað þar úti. Þær voru á leið til afréttar og nú eru þær komnar á Tvídægru og hafa það gott.
Þetta er ósköp einfalt og lögin eru mjög skýr þannig að þetta eru einungis kveinstafir út í loftið. Um leið og alvörulögfræðingar komust í málið lá það ljóst fyrir að Helgavatnsmenn voru ekki í neinum rétti. Það er hinsvegar fjarri því að við viljum eiga fé í Helgavatnslandi eða á þeirra jörðum yfirleitt og rétt að það komi fram,” segir Sigurður.

Share: