Við Ungdomsskolen og Musikskolen i Syd – Djursland þ.e.a.s. utan og austan Árósa starfar hópur ungs fólks á aldrinum 12 – 18 ára. Hópurinn er skipaður dönsurum, söngvurum og hljóðfæraleikurum og kennir sig við Shanghai Akademiet (www.shanghaiakaemiet.dk) vegna þess að hann hefur farið þrisvar í tónleikaferðir til Kína.
Hér er um að ræða úrval úr hópi nemenda skólanna. Hópurinn verður með klukkustundar langa leikhústónleika sem bornir eru uppi af 27 manna flokki, en þemað er kallað Paradise City.
Tvær sýningar verða í Menntaskóla Borgarfjarðar, sú fyrri kl. 19 þriðjudaginn 14. október og er öllum nemendum 8. – 10. bekkjar grunnskóla Borgarbyggðar boðið á þá. Daginn eftir, miðvikudaginn kl. 10 verður sýningin endurtekin og þá er nemendum Menntaskóla Borgarfjarðar boðið. Aðgangur á báða tónleikana er ókeypis.
Eftir tónleikana á þriðjudeginum verður efnt til samveru í Óðali til kl. 22 til að gefa gestunum frá Jótlandi tækifæri á að hitta nemendur grunnskólanna. Á miðvikudag heimsækja gestirnir skólana á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi, fara jafnframt í skoðunarferð um Borgarfjörð, en þeir gista aðfaranótt fimmtudagsí Varmalandsskóla, áður en þeir halda ferðinni áfram um þá um Suðurland.