Góð æfing hjá Slökkviliði Borgarbyggðar

apríl 22, 2009
Síðastliðinn laugardag var samæfing hjá Slökkviliði Borgarbyggðar. Stöðvarnar þrjár, í Reykholti, á Hvanneyri og í Borgarnesi tóku þátt í æfingunni sem fram fór í Fíflholtum. Á þessum þremur stöðvum eru 41 slökkviliðsmenn skráðir til starfa. Af þeim mættu 34 liðsmenn til æfingarinnar og verður það að teljast mjög góð þátttaka sem sýnir mikinn áhuga og samheldni í slökkviliðinu. Gamla íbúðarhúsið í Fíflholtum var brennt og aðaláhersla æfingarinnar var á reykköfun og vatnsöflun. 15 slökkviliðsmenn fóru inn í húsið og æfðu reykköfun við raunverulegar aðstæður. Þyrla landhelgisgæslunnar, TF-Líf tók þátt í æfingunni og sýndi áhöfn hennar hvernig þeir nota tunnu til að losa vatn yfir brunastað og æfðu einnig vatnstöku úr vatnslaug slökkviliðsins og áfyllingu á hana. Áhrifamikið var að sjá þegar þyrlan var yfir alelda húsinu og losaði tvö þúsund lítra af vatni yfir eldinn.
 

Share: