Góð aðsókn að Safnahúsi

febrúar 10, 2010
Frá Safnahúsi Borgarfjarðar:
Á árinu 2009 voru gestir í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi nokkuð á
12. þúsund og er um rúmlega
21 % aukningu frá fyrra ári að ræða.
Í Safnahúsi eru alls fimm söfn: héraðsskjalasafn, héraðsbókasafn, byggðasafn, náttúrugripasafn og listasafn. Gestum á bókasafnið hefur fjölgað um 1.311 á milli ára og er það í greinilegri sókn. Að langmestu leyti er um íbúa í Borgarbyggð að ræða, en einnig fer vaxandi að sumarhúsaeigendur á svæðinu nýti sér þessa þjónustu. Nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar eru kærkomnir nýir gestir Safnahúss og er nokkuð algengt að þeir komi til að leita heimilda á bókasafni eða vinna með barnasýninguna í tengslum við félags- eða sagnfræði. Gestum á skjalasafnið hefur fjölgað til muna og aðsókn að listasal (Hallsteinssal) var með besta móti árið 2009, en þangað komu um 1.600 manns á árinu. Sem dæmi má nefna að sýning Katrínar Jóhannesdóttur hlaut einstaklega góðar viðtökur. Gestafjöldi á byggðasafn stendur nokkurn veginn í stað, fyrst og fremst vegna þess að dagsferðir skólabarna af höfuðborgarsvæðinu voru í algeru lágmarki á árinu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Ragnheiði Stefánsdóttur fá lánaðar bækur hjá Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði. Myndina tók Guðrún Jónsdóttir.
Safnahús (bókasafn, skjalasafn, listasafn) er opið alla virka daga frá 13-18. Sýningin Börn í 100 ár er á neðri hæð hússins og hún er opin alla daga sumarsins frá 13-18 og á öðrum tímum fyrir hópa eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfsemina má sjá á www.safnahus.is.
 

Share: