Góð aðsókn að Safnahúsi Borgarfjarðar í sumar

ágúst 24, 2020
Featured image for “Góð aðsókn að Safnahúsi Borgarfjarðar í sumar”

Starfsfólk Safnahúss hefur fagnað mörgum góðum gestum það sem af er sumri. Fimm sýningar eru í húsinu, þar af tvær sem opnaðar voru í júní. Annars vegar er það sýning Helga Bjarnasonar 353 andlit. Heitið vísar til þess að á sýningunni eru ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir, myndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum.

Sýningin Saga úr samfélagi var opnuð 27. júní, en þar segir frá framtaki Eyglóar Lind Egilsdóttur í Borgarnesi, sjö barna móður og ömmu sem gladdi marga á erfiðum Covid-tímum í vor með því að búa sig upp í mismunandi búninga og guða á gluggann hjá barnabörnum sínum í sóttkví.  Sonja dóttir hennar náði myndum af þessu og skrifaði skýringartexta. Með fleiri myndum er á sýningunni varpað frekara ljósi á konuna að baki þessu vinsæla framtaki.

Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Hafa þær verið vel sóttar í sumar. Auk þessa eru eldri sýningar s.s. sýning um harmleikinn sem varð haustið 1936 þegar franska rannsóknaskipið Pourquoi pas strandaði við Straumfjörð.

Auk þessa eru nokkrar vefsýningar uppi allt árið hér á heimasíðunni og má sem dæmi nefna málverk og teikningar eftir Júlíus Axelsson og ýmsan fróðleik um mannlíf á starfssvæði safnanna.

Þegar haustar verða ýmis fleiri verkefni á dagskrá Safnahúss sem nánar verður sagt frá síðar. Góð aðsókn hefur verið að Héraðsbókasafni það sem af er sumri og mikið hefur verið um fyrirspurnir er varða safnkost skjala- og byggðasafns.

Í Safnahúsi er vel gætt að sóttvörnum og góður möguleiki á að gæta fjarlægðar á tímum Covid-19.


Share: