Gestkvæmt í Reykholti

maí 26, 2009
Frá heimsókn Kallistos Ware í Reykholt
Það hefur verið gestkvæmt hjá Reykholtskirkju-Snorrastofu í maímánuði nú sem fyrr.
Ríflega þúsund manns hafa sótt sýningar undanfarnar vikur og fengið fyrirlestra á vegum Snorrastofu um sögu staðarins og haldið og notið tónleika og athafna í kirkjunni.
Ferðamenn hafa aðallega verið eldri borgarar frá Norðurlöndunum sem hafa komið í stórum hópum á vegum ferðaskrifstofa sem þar starfa en einnig er mikið um gesti innlenda og erlenda sem ferðast um landið á eigin vegum. Flestir heimsækja bæði Snorrastofu og Landnámssetur enda mikið og gott samtarf með þessum aðilum sem hvorir tveggja fást við að miðla upplýsingum og fróðleik um sögu okkar og menningu.
 
Íslensku skólahóparnir eru líka margir en þó ekki eins margir og undanfarin ár og skýrist fækkunin af auknu aðhaldi í rekstri skóla vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.
I fyrra komu u.þ.b. 2000 6. bekkjar nemendur af Vesturlandi og Suðvesturhorninu til þess að fræðast um Snorra Sturluson og verk hans. Í flestum skólum lesa 11 ára nemendur bók um æfi Snorra sem Þórarinn Eldjárn skrifaði fyrir nokkrum árum. Það er gaman að taka á móti þessum hópum sem oftast er fullir áhuga og spyrja mikið.
Gestaíbúðir Snorrastofu hafa verið vel nýttar af fræðimönnum, rithöfundum, blaðamönnum og öðrum sem hafa þurft á næði að halda við störf sín.
Nefna má heimsókn metropolita Grísku Rétttrúnaðarkirkjunnar í Oxford á Englandi Kallistos Ware. Hann lagði leið sína á Vesturland í fylgd sr. Gunnlaugs Garðarssonar eftir fyrirlestrahald við Háskóla Íslands um rétttrúnaðarkirkjuna og fræðslu- og kyrrðardaga í Skálholti. Hann dvaldi á vegum kirkjumiðstöðvar í Reykholti í gestahúsnæði Snorrastofu dagana 18. – 20 maí og ferðaðist umSnæfellsnes og kynnti sér sögu svæðisins í fylgd sr. Geirs Waage. Kallistos hefur verið í forsvari fyrir samkirkjulegt starf kirkjunnar af Konstantínopel. Hann stundaði nám í klassískum fræðum og guðfræði í Westminster og Magdalene College í Oxford. Hann gekk í Austurkirkjuna árið 1958, þá 24 ára gamall. Kallistos hefur skrifað allmargar bækur og flutt fyrirlestra um kristna íhugun og andlega uppbyggingu .
Í sumar verða haldnir ýmsir tónleikar í kirkjunni og á heimasíðu Sorrastofu má finna uppplýsingar um tónleikahaldið.
Í fyrra féllu niður orgeltónleikar sem haldnir hafa verið á vegum Félags Islenskra organista í samstarfi við Reykholtskirkju mörg undanfarin sumur en nú verður þráðurinn tekinn upp að nýju og í sumar verða það organistar af yngri kynslóðinni sem munu halda tónleika um helgar.
 

Share: