Fréttatilkynning
Í gær, öskudag var undirritaður samningur á milli allra slökkviliða á Vesturlandi í Vatnasafninu í Stykkishólmi. Það eru slökkvilið Stykkishólms og nágrennis, Slökkvilið Grundarfjarðar, Slökkvilið Snæfellsbæjar, Slökkvilið Dalabyggðar, Slökkvilið Reykhólahrepps, Slökkvilið Borgarbyggðar og Slökkvilið Akraneskaupstaðar sem eru aðilar samningsins.
Markmiðið með samningnum er að nýta þau tæki og þann mannafla sem slökkviliðin á Vesturlandi hafa yfir að ráða með gagnkvæmri aðstoð við slökkvistörf ef um meiriháttar eldsvoða eða dreifibruna er að ræða.
Með tilkomu samningsins hefur slökkvistjóri þar sem bruni verður heimild til að óska eftir aðstoð annarra slökkviliða á Vesturlandi, telji hann þörf á liðsauka. Slökkvistjórinn sem leitað er til sendir þá tæki og mannafla þegar í stað eftir að metið hefur verið hvaða tæki og mannafla árangursríkast er að senda og slökkvilið hans er aflögufært um. Öll aðstoð sem látin er í té samkvæmt samningnum er án endurgjalds.
Með samningnum eru slökkvistjórar og slökkviliðsmenn á Vesturlandi hvattir til að kynna sér starfsemi og aðstæður hvers annars m.a. með tilliti til öryggisreglna og eldvarna. Samningsaðilar hvetja jafnframt til að haldnar séu sameiginlegar æfingar eftir því sem æskilegt getur talist.
Með samningnum er slökkvistarf á Vesturlandi eflt til muna þar sem hægt er að kalla til aðstoð við slökkvistörf frá öllum sveitarfélögunum á Vesturlandi. Slökkviliðin geta einnig hagrætt með samnýtingu þeirra tækja og búnaðar sem slökkvilið á Vesturlandi hafa yfir að ráða.