Nú er sá árstími þegar hvað mest er hættan á eldsvoða vegna kertaljósa og skreytinga. Slökkvilið Borgarbyggðar vill vekja athygli á nokkrum atriðum sem hafa ber í huga:
* Reykskynjarar eru sjálfsögð og ódýr líftrygging. Skipta þarf um rafhlöður í þeim og gott að gera það í desember ár hvert og oftar ef þörf krefur.
* Er handslökkvitæki á heimilinu? Er það í lagi og hvenær var það síðast yfirfarið?
* Ofhlöðum ekki fjöltengi og gætum að lélegum raflögnum.
* Notum ávallt viðurkennd fjöltengi með rofa og gaumljósi.
* Eldvarnarteppi skal vera á aðgengilegum stað í hverju eldhúsi.
* Gerum flóttaáætlanir með öllum á heimilinu og höfum ekki færri en tvær flóttaleiðir úr hverri íbúð.
* Förum varlega með kertaljós og skreytingar og látum börn ekki vera eftirlitslaus nærri logandi eldi. Höfum ekki logandi kerti nálægt gluggatjöldum.
* Aðgætum hvort ekki sé slökkt á kertum og skreytingum áður en gengið er til hvílu eða íbúð yfirgefin.
* Gott er að dreifa raforkunotkun við matseld um jól og áramót til að koma i veg fyrir óþægindi vegna álags á dreifikerfið.
* Notum öryggisgleraugu og ullar- eða skinnvettlinga við meðferð flugelda.
* Munum 112 – neyðarlínuna, ef slys eða eldsvoða ber að höndum.
Með bestu jólakveðju,
Bjarni K. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri
Haukur Valsson varaslökkviliðsstjóri og eldvarnareftirlistmaður