Fjárhagsáætlun 2010 – hagræðing í rekstri Borgarbyggðar

desember 18, 2009
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum 17. desember s.l. að vísa fjárhagsáætlun Borgarbyggðar til síðar umræðu sem fram fer 14. janúar n.k.
 
Í forsendum fjárhagsáætlunar Borgarbyggðar er gert ráð fyrir að útsvarstekjur lækki áfram á árinu 2010 sem og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ráðgert er að skatttekjur sveitarfélagsins lækki um rúmlega 4% og verði 1.632 milljónir.
Álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðaleigu verður óbreytt, en gjaldskrár vatnsveitu og fráveitu munu hækka í samræmi við samninga sveitarfélagsins við Orkuveitu Reykjavíkur. Þá munu sorphirðugjöld hækka um 17%, en fyrirhugað er að taka upp tveggja tunnu kerfi við hvert hús í þéttbýli og fara í frekari flokkun á sorpi.
Til að mæta samdrætti í tekjum verður gætt ýtrasta sparnaðar í rekstri sveitarfélagsins. Nú þegar hafa verið unnar tillögur að hagræðingu í öllum málaflokkum nema fræðslumálum, en ráðgert er að útfæra tillögur að sparnaði í fræðslumálum á næstu dögum.
Verulegur samdráttur verður í framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir um 25 milljónir og eru framkvæmdir við frágang gatna og gangstétta í nýlegum hverfum helsti kostnaðarliður.
Niðurstaða á rekstri Borgarbyggðar verður neikvæður um 12.8 milljónir samkvæmt áætlun á árinu 2010. Veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 178 milljónir eða 8.1%. Afborganir lána eru áætlaðar 247 milljónir og nýjar lántökur aðeins 50 milljónir. Þetta þýðir að skuldir sveitarfélagsins munu lækka um tæpar 200 milljónir á árinu 2010.
Þrátt fyrir að Borgarbyggð hafi glímt við erfiða fjárhagsstöðu á árinu 2009, er ljóst að ýmis batamerki eru í fjárhagsáætlun árins 2010 enda gerir hún ráð fyrir frekari hagræðingaraðgerðum í rekstri sveitarfélagsins.
 

Share: