Fyrsta skóflustungan að nýju fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi fór fram í gær

mars 21, 2025
Featured image for “Fyrsta skóflustungan að nýju fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi fór fram í gær”

Það var stór dagur í Borgarnesi í gær þegar fyrsta skóflustungan að nýju fjölnota íþróttahúsi var tekin. Þau ríflega 200 börn og fullorðnir sem mættu á staðinn fengu að leggja sitt af mörkum við upphaf framkvæmda, en öllum var boðið að mæta með skóflur og taka skóflustungu.

Mikil gleði var meðal barnanna sem lengi hafa beðið eftir bættri íþróttaaðstöðu og var gaman að sjá þau taka skóflustungur að húsi sem þau munu sjálf nýta til æfinga í framtíðinni. Um er að ræða hálft hús, fjölnota íþróttahús sem verður einangrað og upphitað, og mun að vonum verða mikil lyftistöng fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Borgarbyggð.

Auk barnanna voru ýmsir góðir gestir viðstaddir, þar á meðal gamlar íþróttakempur og fulltrúar KSÍ og UMFÍ, til að heiðra viðburðinn með nærveru sinni. Eysteinn Lárus Pétursson Framkvæmdarstjóri KSÍ kom færandi hendi og gaf íþróttahreyfingunni kassa fullan af fótboltum, sem við þökkum kærlega fyrir.

Umræða um byggingu fjölnota íþróttahúss hefur staðið yfir lengi og hafa íbúar sveitarfélagsins kallað eftir uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Nýja íþróttahúsið mun vafalaust gera Borgarbyggð að enn aðlaðandi kosti fyrir barnafjölskyldur, þar sem innviðir sem þessir skipta verulegu máli þegar fólk hugar að búsetu. Áform eru um að húsið verði tekið í notkun haustið 2026.

Hér fyrir neðan má sjá myndasyrpu frá deginum.

              


Share: