Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna eftir páska

apríl 8, 2020
Featured image for “Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna eftir páska”

Nú er ljóst að búið er að framlengja samkomubanni til 4. maí og hefur það áhrif á fyrirkomulag skólahalds og frístundar eftir páska. Forgangslisti Almannavarna vegna neyðarstigs er í gildi og hefur verðið unnið að skipulagi skólastarfs samkvæmt honum.

Grunnskóli Borgarfjarðar

Skólastarf í Grunnskóla Borgarfjarðar verður með sama hætti og verið hefur.

Á Varmalandi verður starfsemin með hefðbundnu sniði og verður nemendum deilt niður á svæði. Fimmtudagar eru örlítið styttri.

Skólastarf í unglingadeild GBF-Kleppjárnsreykjum verður áfram skert. Hver nemandi mætir annan hvern dag. Kennsla er órofin á yngsta stigi og miðstigi.

Skólastarf á Hvanneyri verður hefðbundið og er nemendum deilt í hópa og á svæði.

Frístund á Hvanneyri verður hefðbundin, börnunum er skipt í tvo hópa og eru hóparnir aðskildir. Börnin mæta með nesti að heiman.

Verði frekari forföll á starfsfólki og kennurum í vikunni munu skólastjórnendur grípa til frekari fjarkennslu.

Grunnskólinn í Borgarnesi

Einverjar breytingar verða varðandi hópaskiptingu í Grunnskólanum í Borgarnesi og verða kennarar í sambandi við foreldra um nánari útfærslu.

Skólastarf verður hefðbundið í 1. – 3. Bekk og lýkur skóla kl.13:00.

Nemendum í 4. – 10. bekk verður skipt í A og B hópa.

Skólaakstur innanbæjar að morgni verður óbreyttur en seinni ferðin verður farin kl. 12:00 og 13:10. Skólaakstur á Mýrar fer kl. 13:10.

Frístund í Borgarnesi verður í boði fyrir 1. og 2. bekk, börnunum er skipt í tvo hópa og eru þeir aðskildir. Einn hópur verður í UMSB húsinu og einn hópur í Skátahúsinu. Börnin mæta með nesti að heiman.

Leikskólar

Andabær, Hnoðraból, Hraunborg og Ugluklettur munu starfa með svipuðu sniði og áður. Börn foreldra á forgangslista Almannavarna vegna neyðarstigs ganga fyrir og mæta á hverjum degi. Önnur börn verða með skerta dvöl hluta úr viku.

Klettaborg opnar fyrir börn foreldra á forgangslista Almannavarna þriðjudag eftir páska.

Mikið návígi er hjá börnunum í leikskólunum og því mikilvægt að huga vel að fjarlægð og sóttvörnum.

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskólinn mun halda úti starfsemi í hljóðfærakennslu/söngkennslu í fjarkennslu. Stærri hópatímar eins og hljómsveitartímar, hópæfingar, tónfundir og tónfræðitímar falla niður eða fara fram með breyttu sniði. Hver og einn kennari verður í sambandi við sína nemendur gegnum vefmiðil og í sameiningu finna þeir aðferð og tíma sem henta.

Íþróttir og tómstundir

Frístundaakstur og íþróttaæfingar falla niður en nánari upplýsingar um íþróttastarf er hægt að finn á heimasíðu UMSB .

Félagsmiðstöðin Óðal hefur fært sig yfir frá hefðbundnum opnunum yfir í stafrænar opnanir. Fylgist með á Instagram undir odal310.

Skipulag á skólastarfi verður endurmetið á föstudögum fyrir komandi viku á meðan á samkomubanni stendur.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi skólastjóra/forstöðumanni ef spurningar vakna.

 


Share: