Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna 23. – 27. mars

mars 20, 2020
Featured image for “Fyrirkomulag á skólahaldi og frístund vikuna 23. – 27. mars”

Í dag hefur staðið yfir skipulagning á skólastarfi á meðan á samkomubanni stendur. Leik- og grunnskólar styðjast við leiðbeiningar frá Almannavörnum, Embætti landlæknis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandi Íslands meðal annars um hópastærð og þrif.

Forgangslisti Almannavarna vegna neyðarstigs hefur tekið gildi og verður unnið að skipulagi skólastarfs þessa viku samkvæmt honum.

Hópar í grunnskólum mega ekki telja fleiri en 20 börn í einu og skal forðast eins og hægt er að þessir hópar blandist ekki yfir daginn. Hópar í leikskólum eiga að telja 4-6 börn með sömum tilmælum.

Aðstæður eru ólíkar í skólum Borgarbyggðar og munu skólastjórnendur hvers skóla senda tilmæli og skipulag síns skóla á foreldra í dag.

Grunnskóli Borgarfjarðar

  • Skólastarf á Varmalandi er hefðbundið og verður nemendum deilt niður á svæði. Fimmtudagar verða þó örlítið styttri.
  • Til skerðingar kemur á skólastarfi í unglingadeild GBF-Kleppjárnsreykjum. Hver nemandi mætir annan hvern dag. Kennsla verður órofin á yngsta stigi og miðstigi.
  • Íþróttir, sund og list-og verkgreinar falla niður í þeirri mynd sem hefur verið. Kennarar munu þó kenna börnum í sínu rými eða úti eftir atvikum.
  • Skólastarf á Hvanneyri er hefðbundið og verður nemendum deilt í hópa og á svæði.
  • Frístund á Hvanneyri er hefðbundin, börnunum er skipt í tvo hópa og eru hóparnir aðskildir. Börnin mæta með nesti að heiman.

Grunnskólinn í Borgarnesi

  • Skólastarf er hefðbundið í 1. – 3. bekk.
  • Nemendum í 4. – 10. bekk er skipt í tvo hópa og mæta þeir annan hvern dag í skólann en fá með sér verkefni heim.
  • Íþróttir, sund og list-og verkgreinar falla niður í þeirri mynd sem hefur verið. List- og verkgreinar á unglingastigi eru í fjarkennslu. Kennarar skipta sér niður á stig.
  • Vegna breytinga á vali og á Íþróttum, sundi og list-og verkgreinum er kennslu þjappað og lýkur skóladegi aðeins fyrr. Skólabílar munu því fara kl. 13:20 og 13:35 innanbæjar og sveitabílar kl. 13:35.
  • Frístund í Borgarnesi er nú í boði fyrir 1. og 2. bekk, börnunum er skipt í tvo hópa og eru þeir aðskildir. Einn hópur er í UMSB húsinu og einn hópur í Skátahúsinu. Börnin mæta með nesti að heiman.

Leikskólar

Leikskólarnir fylgja því sem allflestir leikskólar á landinu gera. Börn foreldra á forgangslista Almannavarna vegna neyðarstigs ganga fyrir. Sumir foreldrar hafa valið að halda sínum börnum alveg heima, en öðrum börnum er skipt niður á daga. Reynt er að koma á móts við óskir og þarfir foreldra eins og hægt er. Mikið návígi er hjá börnunum í leikskólunum og því mikilvægt að huga vel að fjarlægð og sóttvörnum. Hver leikskóli sendir foreldrum skipulag vikunnar.

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskólinn mun halda úti starfsemi í hljóðfærakennslu/söngkennslu í fjarkennslu. Stærri hópatímar eins og hljómsveitartímar, hópæfingar, tónfundir og tónfræðitímar falla niður.

Fyrirkomulagið verður þannig að hver og einn kennari verður í sambandi við sína nemendur gegnum vefmiðil og í sameiningu finna þeir aðferð og tíma sem henta.

Íþróttir og tómstundir

Frístundaakstur og íþróttaæfingar falla niður í þessari viku.

Opnunartími félagsmiðstöðvarinnar Óðal tekur mið af árgöngum. Að hámarki eru 20 ungmenni í húsi á sama tíma. Nánara skipulag má nálgast á facebook síðu Óðals.

Borgarbyggð þakkar foreldrum fyrir að sýna viðbrögðum skólastjórnenda og kennara mikinn skilning. Þetta eru mjög óvenjulegir tímar.

Skipulag á skólastarfi verður endurmetið á föstudögum fyrir komandi viku á meðan á samkomubanni stendur. Samkomubannið hefur verið sett til 13. apríl næstkomandi.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi skólastjóra/forstöðumanni ef spurningar vakna.


Share: