Frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni

janúar 10, 2020
Featured image for “Frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni”

Borgarbyggð styrkir frístundaiðkun barna og ungmenna á aldrinum 6-18 ára með framlagi að upphæð kr. 20.000 á ári. Markmið framlagsins er að hvetja börn og ungmenni til að taka þátt í frístundastarfi.

Hægt er að nýta frístundastyrk í:

  • Skipulagt frístundastarf sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda samfellt í a.m.k. 10 vikur. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum, skátastarf og annað reglubundið frístundastarf.
  • Íþrótta- og tómstundanámskeið barna í 1. og 2. bekk sem skráð eru í Íþrótta- og tómstundaskólann.
  • Þreksal, árskort/sundkort fyrir ungmenni á aldrinum 13 – 16 ára undir eftirliti íþróttafræðings samfellt í a.m.k. 10 vikur.
  • Þreksal, árskort/sundkort fyrir ungmenni eldri en 16 ára.
  • Nám í tónlistarskóla sem er samfellt í a.m.k. 10 vikur.

Hægt er að nýta frístundastyrkinn hjá félögum innan Borgarbyggðar sem og í öðrum sveitarfélögum. Allar umsóknir eru afgreiddar rafrænt, í Þjónustugátt Borgarbyggðar á heimasíðunni www.borgarbyggd.is, í skráningar- og greiðslukerfinu Nóra vegna starfs hjá félögum UMSB á heimasíðunni www.umsb.is eða á heimasíðum annarra sveitarfélaga eða íþróttafélaga.

Forráðamenn skrá sig inn á Þjónustugátt Borgarbyggðar (eða á aðrar síður sem við á), annað hvort með rafrænum skilríkum eða Íslykli. Undir „Frístundastarf“ koma fram upplýsingar um námskeið. Hakað er við „Nota Frístundastyrk Borgarbyggðar“ og þá lækkar upphæð gjalda um þá upphæð sem nemur inneign frístundastyrks.

Frístundastyrkurinn er kr. 20.000 á ári sem möguleiki er að nýta hvenær sem er á árinu. Inneign fellur niður um áramót.


Share: