Framkvæmdir við endurgerð Skallagrímsgarðs

apríl 10, 2014
Farið verður í 2. áfanga við endurgerð Skallagrímsgarðs í næstu viku samkvæmt samþykktri hönnun sem byggir á upphaflegu skipulagi garðsins og áætlað að ljúka honum fyrir lok maí.
 
Árið 2013 var skipulagsteikningin kláruð og samþykkt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Í framhaldinu var farið í lítilsháttar grisjun á gróðri reyndar líkt og árin þar á undan og hafin gróðursetning á fjölærum skuggþolnum þekjuplöntum um miðbik garðsins sem nú þegar eru farnar að gægjast grænar og hraustlegar upp úr moldinni. Þær eiga væntanlega eftir að gleðja gesti garðsins í sumar.
 
Í þessum 2. áfanga verksins verður hafist handa við hleðslu setbekks við Skallagrímshaug og stefnt að því að ljúka því verki og frágangi svæðisins við hann fyrir mánaðarmótin maí – júní. Setbekkurinn mun ná í hálfhring utan við hauginn þar sem gott verður fyrir einstaklinga og hópa að tilla sér í skjóli fallegra trjáa og lágvaxnari gróðurs og njóta litaskrúðs og angan blóma í nærliggjandi beðum. Setbekkurinn verður unninn úr samskonar grjóti og hlöðnu veggirnir við innganginn og við sviðið.
 
Þættir framkvæmdarinnar eru eftirfarandi:

  1. Bundin verður hlíf utan um stofna Álmsins og Asprarinnar sem koma til með að standa sitthvoru megin við setbekkinn. Einnig verður rótarsvæði þessara trjáa girt af meðan á framkvæmd stendur.
  2. Birkilimgerði og 1 stk. ösp bak við Skallagrímshaug verða fjarlægð og efnið fært til kurlunar.
  3. Plöntur innan vinnusvæðisins verða fluttar í burtu til geymslu eða á nýjan varanlegan stað.
  4. Teknir verða stiklingar af þeim plöntum sem ekki verða fluttar vegna stærðar þeirra. Stiklingarnir verða settir í mold og munu nýtast síðar en móðurplantan verður tekin í burtu.
  5. Unnin verður mæling á legu og hæð setbekksins og hún merkt.
  6. Grafinn verður meters breiður skurður sem fylltur verður af möl. Það efni sem kemur úr uppgreftrinum verður geymt sitthvoru megin við vinnusvæðið til að spara fluting á efni og einnig til að geta gripið til þess sé þörf á meðan verið er að hlaða setbekkinn og til notkunar við frágang svæðisins eftir að hleðslu er lokið.
  7. Grjóti og möl til framkvæmdarinnar komið fyrir.
  8. Setbekkur hlaðinn auk kants við beð.
  9. Afgangur af efninu frá uppgreftrinum verður sett bak við setbekkinn.
  10. Ný mold sett ofan á og gróðrsetningarsvæði mótað.
  11. Gróðursetning lágvaxinna plantna aftan við setbekkinn.
  12. Endurplantað í beðin kringum hauginn og til hliðar við hann.
  13. Frágangi svæðisins lokið fyrir mánaðarmótin maí – júní.

 
Að verkinu koma Samson B. Harðarson landslagsarkitekt og hönnuður endurgerðar garðsins, Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari, Steinunn Pálsdóttir sumarstarfsmaður garðsins sem í ár mun vera við vinnu í garðinum lengra tímabil en undanfarin ár og Björg Gunnarsdóttir umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi.
 

Share: