Framkvæmdastyrkir til Íþrótta- og tómstundafélaga í Borgarbyggð

maí 17, 2019
Featured image for “Framkvæmdastyrkir til  Íþrótta- og tómstundafélaga í Borgarbyggð”

Borgarbyggð auglýsir til umsóknar framkvæmdastyrki. Styrkjunum er ætlað styðja við einstakar framkvæmdir hjá íþrótta- og tómstundafélögum innan Borgarbyggðar til uppbyggingar eða viðhalds á fasteignum eða athafnasvæði félagsins sem Borgarbyggð kemur ekki að rekstri að öðru leyti og er í eigu félaga eða félagasamtaka innan Borgarbyggðar.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að um íþrótta-, ungmenna- eða tómstundafélag innan Borgarbyggðar sé að ræða. Umsóknaraðili þarf að reka sértæka aðstöðu eða húsnæði innan sveitarfélagsins sem sveitarfélagið Borgarbyggð hvorki á eða rekur og leggur ekki til framkvæmdarfé á fjárhagsáætlun.

Umsókninni þarf að fylgja framkvæmdar- og kostnaðaráætlun. Einnig þarf að koma skýrt fram hvert er markmið framkvæmdarinnar.

Hægt er að sækja um styrki til verkefna sem eru nú þegar í gangi eða eru áformuð. Ekki er úthlutað vegna verkefna þar sem framkvæmdum er lokið.

Hámarksstyrkur er  kr. 2.000.000  og getur hvert verkefni að hámarki verið stutt 3 ár í senn. Sjálboðavinna er metin að fullu sem vinna.

Styrkurinn greiðist í tvennu lagi, 50% við tilkynningu um styrkveitingu og 50% þegar lokaskýrsla hefur borist byggðarráði. Verði verkið ekki framkvæmt skal styrkurinn endurgreiðast að fullu. Vinnist verkið ekki eins og fram kom í upphaflegri styrkbeiðni verður að koma skýrt fram í lokaskýrslu hversvegna svo er ekki og rökstuðningur að fylgja.

Við úthlutun á styrk skal eftirfarandi reglum fylgt til að fá úr því skorið hvort framkvæmdin  teljist styrkhæf.

  • Að um sé að ræða skilgreint íþrótta og/eða tómstundafélag sem standi fyrir framkvæmdinni.
  • Að félagið eigi lögheimili í Borgarbyggð og sé opið öllum.
  • Að framkvæmdin bæti aðstöðu og/eða auki möguleika á að fjölga iðkendum í viðkomandi félagi.
  • Að félagið hafi fjárhagslega eða félagslegan styrk til að standa að framkvæmdum og rekstri þess sem á að framkvæma enda komi það fram í áætlun sem fylgi með umsókn.
  • Að starfsemin falli vel að markmiðum sveitarfélagsins um íþróttir og tómstundir sem birtast í stefnum þess. Þar má nefna bæði Íþrótta og tómstundastefnu og Heilsueflandi samfélag.

Sótt er um á íbúagátt á heimasíðu Borgarbyggðar fyrir 30. maí 2019

Nánari upplýsingar veitir Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs á annamagnea@borgarbyggd.is


Share: