Frá hestum til hestafla – fyrirlestur í Snorrastofu

október 8, 2013
Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri flytur fyrirlesturinn Frá hestum til hestafla – jarðræktarsögur úr Borgarfirði, í Snorrastofu í kvöld, þriðjudaginn 8. október kl. 20.30. Fyrirlesturinn er samvinnuverkefni Snorrastofu og Landbúnaðarsafns Íslands en Bjarni er forstöðumaður þess.
Í fyrirlestrinum verður sagt frá túnasléttun í upphafi umbótaaldar, þegar farið var að nýta dráttarafl hestanna með verkfærum á grundvelli erlendrar verkþekkingar. Áhersla verður einkum lögð á umbótaverk jarðræktarmanna í Borgarfirði og sagðar jarðræktarsögur úr héraði. Þróuninni verður síðan fylgt fram á tíma vélaaflsins. Erindið er að miklu leyti byggt á rannsóknum Bjarna vegna uppbyggingar Landbúnaðarsafnsins á Hvanneyri en sérstaklega þó vegna ritunar bókarinnar Frá hestum til hestafla, sem er nýkomin út.
 
Gestum kvöldsins býðst að kaupa bókina.
 
Bjarni Guðmundsson er Vestfirðingur, Dr. scient frá Norska landbúnaðarháskólanum 1971. Hann hefur kennt á Hvanneyri sl. fjörutíu ár og rúmlega það og jafnhliða unnið að rannsóknum á sviði fóðuröflunar. Er nú hættur störfum við skólann en ber áfram ábyrgð á Landbúnaðarsafni Íslands og sinnir rannsóknum á landbúnaðarsögu í frítíma sínum, einkum á verkháttum á tuttugustu öld og þróun þeirra.

Share: